Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íshellan sígur hraðar og varað við ferðum við Grímsvötn

Skáli og mælitæki Jöklarannsóknarfélags Íslands ´á Grímsfjalli. Grímsvötn í baksýn. Sólsetur. Júní 20250.
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Lögreglan á Suðurlandi varar við ferðum í og við Grímsvötn og Grímsfjall, vegna jökulhlaups sem talið er að fari að hefjast úr Grímsvötnum.

Íshellan í Grímsvötnum sígur nú mun hraðar en síðustu tvo sólarhringa, eða um 55 sentímetra á dag. Veðurstofa Íslands mælir ekki enn hlaupvatn í Gígjukvísl en segir þó margt benda til þess að hlaup komi úr Skeiðarárjökli von bráðar.

Mikill vindur á svæðinu truflar gasmælitæki við jökulinn, en gasmælar geta gefið vísbendingu um að hlaup eða gos sé að hefjast. Enginn gosórói hefur mælst á svæðinu en hópur frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands fer að Grímsvötnum í dag til þess að gera frekari rannsóknir.

Hættulegar jökulsprungur geta myndast

Í tilkynningu fá lögreglunni á Suðurlandi segir að hættulegar jökulsprungur geti myndast á ferðaleiðum vegna þess að íshellan í Grímsvötnum er farin að síga. Auk þess geta myndast sprungur yfir hlaupfarveginum sem liggur austan við Grímsfjall og niður Skeiðarárjökul.  

Þegar hlaupið kemur undan Skeiðarárjökli getur gas losnað úr hlaupvatninu sem fer yfir heilsuverndarmörk.

Þá minnir lögreglan á að dæmi séu um eldgos í lok jökulhlaupa í Grímsvötnum, með tilheyrandi öskufalli. Hættulegar aðstæður geti skapast á jöklinum ef eldgos hefst, og í samráði við Jöklarannsóknarfélagið verður skálum á Grímsfjalli lokað á meðan ástandið varir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Hitastig hækkar í Gígjukvísl

Vatnsmælar Veðurstofunnar sýndu nú skömmu eftir hádegi að hitastig í Gígjukvísl fer hækkandi. Að auki hefur rafleiðni aukist lítillega.