Grímuskylda í Danmörku eftir helgi

26.11.2021 - 00:25
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Meirihluti sóttvarnanefndar danska þingsins samþykkti í kvöld að tekin verði upp grímuskylda í almenningsfarartækjum og verslunum frá og með næstkomandi mánudegi.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Stinus Lindgreen formanni nefndarinnar að álitið hafi verið brýnt að almenningur bæri grímur þar sem búast megi við margmenni.

Því þurfi Danir að muna eftir að taka með sér grímu jafnvel þótt aðeins eigi að skjótast út í búð eftir mjólkurpotti. Vika er síðan Dönum var að nýju gert skylt að framvísa rafrænum heilsupassa. 

Grímuskyldan gildir í verslunum af öllum stærðum og gerðum, smávöru jafnt sem heildsölu og í öllum verslanamiðstöðvum. Nefndin var ekki á einu máli um hvort starfsfólki verslana skuli gert að bera grímur.