Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki með minnisblað í smíðum eins og er

26.11.2021 - 09:16
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir - RÚV
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort grípa þurfi til hertra aðgerða á landamærum hérlendis vegna nýs og meira smitandi afbrigðis kórónuveirunnar. Evrópusambandið íhugar að stöðva allar flugferðir frá sunnanverðri Afríku og Bretar hafa þegar þegar gripið til hertra ferðatakmarkana á landamærum sínum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við fréttastofu að ekki standi til að leggja til hertar aðgerðir á landamærum hérlendis vegna þessa nýja afbrigðis að svo stöddu. Ekkert minnisblað sé í smíðum eins og er.

Nýtt afbrigði kórónuveirunnar hefur greinst í sunnanverðri Afríku og vekur vísindamönnum ugg. Óttast er að það geti verið það versta hingað til. Margt þykir benda til að það smitist hraðar en önnur afbrigði og að það geti komist framhjá þegar áunnu ónæmi. Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar funda vegna málsins í dag.