Viðvaranir gætu orðið appelsínugular fyrir austan

25.11.2021 - 07:22
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Gul viðvörun tekur gildi á Austfjörðum og Suðausturlandi klukkan átta í kvöld. Búist er við norðvestan stormi sem gæti leitt til samgöngutruflana í landshlutunum.

Það er lítilsháttar lægð norður af landinu sem hreyfist til suðausturs og dýpkar ört síðar í dag. Það veldur vaxandi norðanátt á austurhelmingi landsins sem nær stormstyrk eða roki á Suðausturlandi undir miðnætti. Áfram hvessir í nótt og gætu viðvaranir orðið appelsínugular. 

Myndin hér að ofan sýnir vindaspá Veðurstofunnar klukkan 04 komandi nótt.

Það dregur hins vegar talsvert úr vindi eftir hádegi á morgun og þá falla viðvaranir jafnframt út gildi. Hiti fer þá ört lækkandi og búast má við talsverðu frosti seinni partinn.

Það verður annars ákveðin vestlæg átt með rigningu eða slyddu öðru hvoru í dag, en smá snjókoma Norðaustanlands og hlýnandi veður í bili. Norðlægari eftir hádegi
með éljum á Norður- og Austurlandi, en léttir annars til og kólnar.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV