Vanda Sigurgeirs: Hann þarf að stjórna ferðinni sjálfur

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Vanda Sigurgeirs: Hann þarf að stjórna ferðinni sjálfur

25.11.2021 - 14:36
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna starfsloka Eiðs Smára Guðjohnsen sem aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins í fótbolta.

Vanda hefur síðastliðinn sólarhring verið töluvert gagnrýnd fyrir að hafa ekki viljað svara fjölmiðlum í kjölfar tilkynningar KSÍ á þriðjudagskvöld um starfslok Eiðs. Vanda hefur nú rofið þögnina með fréttatilkynningu þar sem hún segir ástæðuna fyrir því að hún hafi ekki svarað fjölmiðlum hreinlega vera þá að stjórn KSÍ hafi ekki viljað ræða persónuleg mál Eiðs
Smára í fjölmiðlum. Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ, sagði þó í gær að aðdragandinn að niðurstöðu stjórnar KSÍ hafi verið langur.

Yfirlýsing Vöndu Sigurgeirsdóttur í heild sinni:

Líkt og fram hefur komið þá tóku stjórn KSÍ og Eiður Smári Guðjohnsen sameiginlega ákvörðun um starfslok hans sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. Í kjölfarið hafa fjölmiðlar leitað svara um málið.

Af sjálfsagðri virðingu við einkalíf Eiðs Smára þá höfum við, ég sem formaður KSÍ, stjórn og starfsfólk KSÍ, farið þá leið að tjá okkur ekki í smáatriðum um tildrög starfsloka hans. Við viljum ekki og getum ekki rætt hans persónulegu mál í fjölmiðlum. Þar þarf hann að stjórna ferðinni sjálfur. 

Ákvörðun sem þessi er alltaf þungbær, á sér langan aðdraganda og er ekki tekin nema að vel ígrunduðu máli. Aftur óskum við Eiði velfarnaðar og þökkum honum góð störf.

Stjórn KSÍ hefur þegar rætt og mun ræða áfram hvort ástæða sé til þess að hætta að veita hóflega áfengi að verkefnum loknum. 

Nú tekur við vinna við leit að nýjum aðstoðarþjálfara þar sem þjálfari liðsins, Arnar Þór Viðarsson, mun að sjálfsögðu ráða ferðinni.  Vonandi gengur sú leit hratt og örugglega fyrir sig og við finnum réttan aðila í starfið við hlið Arnars til að leiða áframhaldandi uppbyggingu á þessu unga og spennandi landsliði.

Kveðja,
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ