Tilkynntum kynferðisbrotum fer fjölgandi

25.11.2021 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Kynferðisbrotum gegn börnum fjölgaði á síðasta ári. Þetta kemur fram í tölfræði frá ríkislögreglustjóra. 

Fleiri brot í ár en hefur verið

Í tilkynningu frá lögreglu segir að tilkynntum nauðgunum fari almennt fjölgandi ár frá ári og hafa tilkynnt brot verið fleiri en 180 á fyrstu tíu mánuðum ársins allt frá árinu 2017, að undanskildu árinu 2020. 

Það ár fækkaði nauðgunum nokkuð. 161 tilkynning barst en að meðaltali höfðu tilkynningar verið 235 á ári þrjú árin á undan.

 

Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru 119 í fyrra, fjórðungi fleiri en síðustu þrjú ár á undan þegar meðaltalið var 98 á ári. 

Langflestir grunaðir karlar

Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem grunaðir eru um kynferðisbrot og langflestir brotaþolar konur. Karlar voru grunaðir í 94 prósentum brota það sem af er ári 2021 og konur brotaþolar í 84 prósentum tilfella.

Í tilkynningunni segir að fjölgun eða fækkun skráðra brota geti átt sér margar skýringar. Ein ástæðan fyrir breytingum sé til dæmis samfélagsumræða. Þá segir að mun fleiri brot eigi sér stað en tilkynnt er um og kveðst lögregla vinna að því að auka hlutfall tilkynntra brota.

Samfélag án kynferðisbrota

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir í tilkynningunni að lögreglan vilji samfélag án kynbundins ofbeldi og kynferðisbrota og að því sé unnið með markvissum hætti.

Lögreglan verði að gera allt sem í valdi sínu stendur til að veita þolendum sem besta vernd og fæla framtíðarbrotamenn frá því að beita ofbeldi.

Þórgnýr Einar Albertsson