„Þurfum bara að vinna þetta á baráttunni”

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Þurfum bara að vinna þetta á baráttunni”

25.11.2021 - 11:50
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta mætir Hollandi í fyrsta leik í undankeppni HM á morgun. Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður, segir að barátta liðsins geti tryggt því sigurinn.

Íslenska liðið hefur verið í Amsterdam síðastliðna daga og undirbúið sig fyrir leikinn gegn heimamönnum í Hollandi. Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður, segir undirbúninginn hafa verið góðan. „Það er gaman að vera með strákunum. Við erum að æfa vel og ég held að við séum búnir að nýta tímann vel til að slípa okkur saman og gera okkur tilbúna,” segir hann.

Liðin tvö séu álíka sterk og telur hann íslenska liðið eiga góða möguleika.
„Mér líst bara mjög vel á þetta. Ég held að þetta verði hörkuleikur. Þetta eru tvö lið sem eru bara nokkuð jöfn í hæfileikum og svona og við þurfum bara að vinna þetta á baráttunni,” segir Tryggvi.

Eftir leikinn á morgun heldur íslenska liðið svo frá Hollandi til Sankti Pétursborgar þar sem það leikur gegn Rússlandi á mánudaginn. En leikur Íslands og Hollands hefst á morgun klukkan 18:30 og er sýndur beint á RÚV 2. Upphitun hefst í HM-stofunni klukkan 18.

Viðtalið við Tryggva Snæ má sjá í spilaranum hér að ofan.