Skandall að læknirinn starfi meðan andlát er rannsakað

25.11.2021 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eva Hauksdóttir furðar sig á að læknirinn sem er til rannsóknar hjá lögreglu vegna andláts móður hennar hafi verið ráðinn til starfa á Landspítala. Hún segir að umfang málsins ætti ekki að skipta máli, og ef læknir sé með réttarstöðu sakbornings væri réttara að senda hann í leyfi á meðan.

Læknirinn er til rannsóknar hjá lögreglu vegna andláts sex sjúklinga og meðferðar fimm til viðbótar. Hann starfaði í fyrstu undir eftirliti á Landspítala eftir að málið kom upp, en fékk endurnýjað takmarkað starfsleyfi fyrir tveimur vikum, sama dag og Landsréttur úrskurðaði að dómskvaddir matsmenn skyldu vera til svara í málinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er annar læknir, sem einnig er með réttarstöðu sakbornings í málinu, enn með gilt læknaleyfi.

Kvörtuðu til Landlæknis og kærðu til lögreglu

Móðir Evu Hauksdóttur var lögð inn í hvíldarinnlögn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja árið 2019, en var sett í lífslokameðferð. Hún lést ellefu vikum síðar. Fjölskylda hennar kvartaði undan meðferðinni til Landlæknis, sem tók málið til rannsóknar. Niðurstaða Landlæknis lá fyrir um vorið 2021.

„Og það er bara áfellisdómur frá Landlæknisembættinu, það er svo ofboðslega margt sem klikkaði, það var ekki bara þessi lífslokameðferð, þó að hún sé það alvarlegasta,“ segir Eva. Móðir hennar hafi einnig fengið ranga lyfjagjöf, næringarskortur og sýkingar ekki verið meðhöndlaðar. „Hún fékk ekki snúningsskema þótt að við bæðum um það, hún var með legusár, hún fékk ekki vökvaskema þótt væri beðið um það,“ segir Eva. „Það kemur fram í sjúkraskrám að það er í raun þessi læknir sem er ábyrgur fyrir meðferð hennar sem stoppar svona hluti.“

Fjölskyldan hafi reynt að vekja athygli á því að meðferð móður hennar væri ábótavant en án árangurs. „Við vorum náttúrulega stöðugt að kvarta, vegna þess að okkur var misboðið. Auðvitað verður maður svo sjokkeraður þegar maður fer að lesa sjúkraskýrslurnar og fær bara staðfestingu á öllu því sem að okkur grunaði að hefði farið úrskeiðis,“ segir Eva. Í framhaldinu tilkynnti fjölskyldan málið til Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Landspítala ekki kunnugt um umfang málsins

Læknirinn sem bar ábyrgð á meðferð móður hennar hefur undanfarið verið við störf á Landspítala. Fram kom í svari frá Landspítala í gær að spítalanum hefði ekki verið kunnugt um umfang málsins fyrr en í gær.

Eva furðar sig á að læknirinn hafi fengið að starfa á meðan mál móður hennar er til rannsóknar. „Mér finnst þetta bara algjör skandall. Ég skil ekki hvers vegna þetta er talið í lagi.“ Hún segist ekki fara fram á maðurinn missi vinnuna að svo komnu máli, en telur rétt að senda hann í leyfi frá störfum. „Ekki hafa manninn inni á deild með fárveiku fólki á meðan það er verið að rannsaka málið.“

Fá ekki réttargæslumann

Fjölskylda konunnar fær ekki réttargæslumann vegna málsins og hefur kært þá ákvörðun til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Eva segir að fjölskyldan eigi erfitt með  að fá upplýsingar um rannsóknina, þar sem þau teljast ekki brotaþolar í málinu. „Við erum ekki talin eiga rétt á réttargæslumanni og ég er búin að kæra það til Mannréttindadómstóls Evrópu.“ Hún segist vita um aðstandendur annarra sjúklinga sem veigri sér við að leita réttar síns, þar sem þeir eiga samkvæmt þessu ekki rétt á lögfræðiaðstoð, nema greiða hana fullu verði. Ekki hafi allir kost á því.

Tvö ár eru liðin frá andláti móður hennar. Eva veltir fyrir sér hvers vegna rannsóknin taki svona langan tíma. Á meðan sé læknirinn enn við störf.