Pólverjar og Hvítrússar brjóta á flóttafólki

epa09600726 Migrants look through clothes delivered by the Belarusian Red Cross at the transport and logistics center near the Bruzgi checkpoint at the Belarusian-Polish border, in the Grodno region, Belarus, 24 November 2021. Asylum-seekers, refugees and migrants from the Middle East arrived at the Belarusian-Polish checkpoint of Bruzgi-Kuznica aiming to cross the border. Thousands of people who want to obtain asylum in the European Union have been trapped at low temperatures at the border since 08 November.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch, eða Mannréttindavaktin, fullyrða í nýrri skýrslu sinni að brotið sé á mannréttindum þúsunda flótta- og förufólks við landamæri Hvíta Rússlands að Póllandi þar sem þau búa við illan kost og komast hvergi. Bæði ríki eru harðlega gagnrýnd í skýrslunni.

Fulltrúar samtakanna fóru á vettvang, beggja vegna landamæranna, í október síðastliðnum. Tekin voru ítarleg viðtöl við 19 manns úr hópi flóttafólksins, sem höfðu frá alvarlegum brotum að segja.

„Deyðu hér eða farðu til Póllands“

Í 26 blaðsíðna skýrslunni, sem ber titilinn „Deyðu hér eða farðu til Póllands,“ má meðal annars lesa um hvernig pólskir landamæraverðir þvinguðu fólk sem komist hafði yfir landamærin til Póllands aftur yfir til Hvíta Rússlands og beitti til þess ofbeldi ef ekki dugði annað, þrátt fyrir að lög kveði skýrt á um að það eigi rétt á að sækja um hæli í Póllandi.

Í Hvíta Rússlandi hefur fólkið ítrekað verið niðurlægt og beitt þvingunum og ofbeldi af hendi þarlendra landamæravarða og í báðum löndum er komið í veg fyrir að það fái utanaðkomandi aðstoð. Það hefur ekki í nein hús að venda, fær litla sem enga hjálp af nokkru tagi og nýtur engra þeirra réttinda sem alþjóðalög um fólk á flótta kveða á um.

Bæði ríki bera ábyrgð

„Þótt Hvítrússar hafi skapað þetta ástand án þess að hirða nokkuð um afleiðingarnar fyrir fólkið, þá bera Pólverjar líka ábyrgð á þeirri miklu neyð sem ríkir við landamærin,“ segir Lydia Gall hjá Mið-Asíu og Evrópudeild Mannréttindavaktarinnar.

„Karlar, konur og börn hafa verið rekin fram og til baka yfir landamærin dögum og vikum saman í miklum kuldum, í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð sem bæði ríki hindra að þau fái.“