Óskrifað blað sem reynslan fyllir út

Mynd: Daníel Hjálmtýsson / Daníel Hjálmtýsson

Óskrifað blað sem reynslan fyllir út

25.11.2021 - 15:00

Höfundar

Við heyrum lög af nýlegum hljómplötum í Undiröldu kvöldsins sem verður sú síðasta áður en við dembum okkur í jólalagaflóðið. Listafólk kvöldsins hefur sumt hvert reynt að felulita poppið sitt með alls konar trixum en það eru þau Teitur Magnússon, Daníel Hjálmtýsson, Sucks To Be You Nigel, Dr Gunni, Supersport! og jazzbandið Ludvig Kári Kvartett.

Teitur - Dýravísur

Nýjasta plata Teits Magnússonar, 33, kom út í byrjun mánaðar og er hans þriðja. Gripurinn er tólf laga og margir ættu að kannast við lögin Líft í mars, Skrítið og Sloppinn, sem hafa heyrst töluvert hér á Rásinni. Teitur er á sömu línu og Adele þegar kemur að nafngiftum á plötum hans en nöfn þeirra vísa í raunaldur Teits við smíði hverrar plötu.


Daníel Hjálmtýsson - Tabula Rasa

Tabula Rasa er þriðja smáskífan af væntanlegri breiðskífu Daníels Hjálmtýssonar sem kemur út á næsta ári. Daníel skrifaði nýverið undir samning við belgísku bókunarskrifstofuna Glory Box og vinnur þessa dagana ásamt hljómsveit sinni og hollensku umboðsskrifstofunni Thero Agency að tónleikaferðalögum í Evrópu á næsta ári.


Sucks To Be You, Nigel - Raflost

Hljómsveitin Sucks To Be You, Nigel sendi nú í nóvember frá sér sína fyrstu plötu sem heitir Tína blóm. Tónlistin er hrátt og hressandi rokk eða póst pönk í anda post-dreifingar samfélagsins en þó gefin út á útgáfufyrirtækinu Spectral Assault Records í Reykjavík.


Dr Gunni - Draumur í dós

Platan Nei, ókei frá Dr Gunna kvartettinum er tólf laga breiðskífa sem kom út um miðjan október. Auk glaðasta hundsins Gunn­ars Hjálm­arssonar­ skipa kátu hvolparnir Guðmund­ur Birg­ir Hall­dórs­son, Grím­ur Atla­son og Kristján Freyr Hall­dórs­son sveitina sem hefur verið starfandi í þessari mynd síðan upp úr aldamótum.


Supersport! - Song For My Friend, June

Plata Supersport! Tveir dagar er þeirra fyrsta og var unnin í samstarfi við upptökustjórann Árna Hjörvar Árnason úr ensku rokksveitinni The Vaccines. Platan gengur glimrandi vel á streymisveitum en hún kom út um miðjan september hjá japönsku plötufyrirtæki sem verður að teljast óalgengt hér á landinu kalda.


Ludvig Kári Kvartett - Rákir

Ludvig Kári Kvartett hefur sent frá sér plötuna Rákir með frumsömdum íslenskum jazz-bræðingi, innblásnum af þoturákum í veðrahvolfi norðursins eins og segir í tilkynningu. Kvartettinn er skipaður jazz-tónlistarmönnunum Ludvig Kára Forberg á víbrafón, Phil Doyle spilar á saxófóna, Stefán Ingólfsson á bassa og Einar Scheving á trommur.