Má ætla að annmarkar hafi haft áhrif á niðurstöðu?

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fundur stendur nú á þingi, þar sem til stendur að afgreiða útgáfu kjörbréfa og um leið leiða til lykta talningarmál í Norðvesturkjördæmi.

Eins og áður hefur komið fram munu þingmenn greiða atkvæði um þrjár tillögur:

  • Að staðfesta kjör þingmanna í samræmi við seinni talningu í Norðvesturkjördæmi
  • Að boða til uppkosningar í Norðvesturkjördæmi. Það þýðir að kjörbréf þingmanna í Norðvesturkjördæmi, sem og jöfnunarþingmanna af öllu landinu, verða ekki staðfest. 
  • Að staðfesta engin kjörbréf heldur boða til uppkosninga

Sjá meira: Allt frá staðfestingu talningar til nýrra kosninga

Enginn ágreiningur virðist uppi meðal þingmanna um staðreyndir málsins, að annmarkar hafi verið á meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi, þau ekki innsigluð, ekki fært réttilega í gerðarbók, starfsfólk hótels hafði aðgengi að óinnsigluðum kjörgögnum.

Og breytingar urðu á niðurstöðum milli fyrstu og annarrar talningar í kjördæminu, sem urðu til þess að fimm þingmenn misstu sæti sitt og aðrir fimm komu inn í staðinn.

En þingmenn á öndverðum meiði um hvað eigi að gera við þær upplýsingar. Stafar það af ólíkri túlkun á 3. mgr. 120. gr. laga um kosningar til alþingis.

„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar.“

Gallar eru til staðar. En má ætla að þeir hafi haft áhrif?

Telja þurfa sönnun eða sterkari vísbendingar um áhrif

Að mati Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns undirbúningskjörbréfanefndar, er svo ekki. Birgir sagði í ræðu sinni að hann teldi ekki heimilt að ógilda kosningu í kjördæminu, þar sem ekki væri ástæða til að rengja það að seinni talning atkvæða væri rétt.

„Til þess verður að koma fram eitthvað sem bendir til þess. Eitthvað um að það megi ætla að [ágallarnir] hafa áhrif,“ sagði Birgir í ræðustól í dag.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem einnig sat í undirbúningskjörbréfanefnd, er sama sinnis. Hann sagði að allt sem nefndin hefði komist að benti til þess að mannleg mistök hafi átt sér stað við fyrri talningu, sem skýri hvers vegna munur var á niðurstöðu. 

„Við getum ekki sagt nákvæmlega hvar þau mistök voru. En það er enginn grunur eða raunverulegur vafi um að það hafi verið átt við atkvæði, og sá annmarki að kjörgögnin voru ekki undir innsigli, hafi orðið til þess.“

Eyjólfur Ármannsson, nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, tók í sama streng. „Það er mjög mikilvægt þegar verið er að skoða lög, að skoða textann,“ sagði hann máli sínu til stuðnings.

Vísað í fordæmi frá Hæstarétti

Aðrir þingmenn líta málið öðrum augum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er þeirra á meðal en hún styður uppkosningu í Norðvesturkjördæmi.

Hún segir það stjórnvalda að færa sönnur á að annmarkarnir, sem sannarlega voru á meðferð kjörgagna, hafi ekki haft áhrif á niðurstöðuna.

„Borgarinn á ekki að þurfa að sýna fram á það heima hjá sér að ekki hafi verið átt við kjörgögnin, heldur er það stjórnvalda að sýna fram á að það hafi ekki verið gert,“ sagði Svandís. Að virtum staðreyndum málsins væri ljóst að ekki væri hægt að gera það.

Þingmenn vísuðu einnig til fordæma Hæstaréttar um ógildingu annarra kosninga, án þess að sýnt hefði verið fram á að annmarkar hefðu haft áhrif á niðurstöðu. Má þar nefna kosningar til stjórnlagaþings árið 2010, en þar heimfærði dómurinn lög um kosningar til alþingis í rökstuðningi sínum fyrir ógildingu:

Lög nr. 24/2000 [um kosningar til Alþingis] eru byggð á því meginviðhorfi að gagnsæi eigi að ríkja við talningu atkvæða. Skal í því sambandi áréttað að ekki er nóg að rétt sé talið ef ekki ríkir traust um að þannig hafi verið að verki staðið. 

Vonir eru bundnar við að þingmenn ljúki afgreiðslu málsins síðar í dag. En mælendaskrá er löng og má ætla að það gæti tekið sinn tíma.