Kjörbréf í öllum kjördæmum staðfest

25.11.2021 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmenn á Alþingi staðfestu í kvöld kjörbréf allra þingmanna og varaþingmanna. Tillögur um að staðfesta öll kjörbréf nema í norðvesturkjördæmi var felld og sömuleiðis tillaga um að ógilda kosningarnar á landinu öllu. Allir þingmenn samþykktu kjörbréf í fimm af sex kjördæmum landsins. Kjörbréf þingmanna og varaþingmanna í norðvesturkjördæmi voru staðfest með talsverðum meirihluta.

42 staðfestu kjörbréfin, fimm þingmenn höfnuðu þeim og sextán þingmenn sátu hjá í atkvæðagreiðslunni. Kjörbréf allra þingmanna og jafn margra varamanna eru því samþykkt. Gert var fimmtán mínútna hlé áður en nýir þingmenn undirrituðu drengskaparheit.

Tillögur Svandísar Svavarsdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur um að samþykkja kjörbréf í öllum kjördæmum nema norðvesturkjördæmis var felld með atkvæðum 42 þingmanna gegn 16 þingmönnum sem voru hlynntir henni. Fjórir þingmenn sátu hjá.

Þrír þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði með tillögu um að staðfesta kjörbréf þingmanna allra kjördæma nema í norðvesturkjördæmi. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var meðal þeirra, en hún lagði tillöguna fram. Tveir þingmenn Vinstri grænna til viðbótar sátu hjá.

Hinir tveir þingmenn Vinstri grænna sem greiddu atkvæði með tillögunni voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Þau Jódís Skúladóttir og Orii Páll Jóhannsson sátu hjá. Vinstri græn var eini stjórnarflokkurinn sem klofnaði í afstöðu sinni til samþykktar kjörbréfanna.  Steinunn Þóra greiddi svo atkvæði ásamt 41 öðrum þingmanni með staðfestingu kjörbréfa þingmanna og varaþingmanna norðvesturkjördæmis, en hinir fjórir áðurtöldu þingmennirnir sátu hjá þegar sú tillaga var lögð fram.Þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks voru samstíga í sinni atkvæðagreiðslu og greiddu allir atkvæði með því að staðfesta öll kjörbréf. 
Svandís Svavarsdóttir sagði í viðtali við Einar Þorsteinsson í Kastljósi í kvöld að hver þingmaður yrði að gera það upp við sig hvernig hann greiddi atkvæði um kjörbréfin. Henni þótti ekki hægt að sannreyna að ekki hafi verið átt við gögnin.

 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði í viðtali í kvöldfréttum sjónvarps að hún teldi að leiða þurfi að því mjög sterkar líkur að annmarkarnir sem ótvírætt voru á vörslu atkvæða hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna. Hún greiddi því atkvæði með staðfestingu allra kjörbréfa.

Sex þingmenn greiddu atkvæði með tillögu Björns Levís Gunnarssonar um að kosningarnar á öllu landinu yrðu taldar ógildar og engin kjörbréf yrðu samþykkt. 53 þingmenn greiddu atkvæði á móti henni. 

Þá lagði Indrið Ingi Stefánsson fram tillögu um að kjörbréf í norðvesturkjördæmi yrðu staðfest út frá niðurstöðum fyrri talningar í kjördæminu. Fjórir þingmenn sögðu já við þeirri tillögu, 55 greiddu atkvæði gegn henni og fjórir sátu hjá.

Það er því ljóst hvaða 63 þingmenn sitja þingið á kjörtímabilinu og hverjir varamenn þeirra verða.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV