Haukar steinlágu fyrir Tarbes í Evrópubikarnum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Haukar steinlágu fyrir Tarbes í Evrópubikarnum

25.11.2021 - 21:15
Kvennalið Hauka í körfubolta steinlá fyrir franska liðinu Tarbes í kvöld í riðlakeppni Evrópubikarsins. Haukar hafa tapað öllum leikjum sínum til þessa í riðlakeppninni.

 

Þetta var fimmti leikur Hauka af sex í riðlakeppninni en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt lið leikur í riðlakeppni Evrópubikarsins. Haukar sáu ekki til sólar í fyrsta fjórðungi því franska liðið vann hann 24-8. Haukar réttu þó aðeins hlut sinn í öðrum leikhluta en staðan í hálfleik var 36-20 fyrir Tarbes.

Haukum, sem léku án Helenu Sverrisdóttur, tókst ekki að trekkja sig upp í seinni hálfleiknum gegn sterku frönsku liði. Haiden Palmer var stigahæst Hauka með 14 stig í leik sem Tarbes vann 79-41. Haukar sækja tékkneska liðið Brno heim í lokaleik sínum í L-riðli næsta miðvikudagskvöld.