Hanna skip fyrir línuveiðar Rússa við Afríkustrendur

25.11.2021 - 06:55
Mynd með færslu
 Mynd: Nautic - Aðsend mynd
Íslenska hönnunarstofan Nautic vinnur að hönnun fimm línubáta fyrir rússneska útgerð. Tekur hönnunin mið af því að bátunum er ætlað að nýtast við veiðar á smokkfiski og bolfiski undan Afríkuströndum. Fiskifréttir greina frá. Þar kemur fram að bátarnir verði búnir sjálfvirkri beitingarvél, en samkvæmt frétt blaðsins telst slíkt til nýjunga á þessum fiskislóðum. Þá tekur hönnunin mið af því að hægt sé að nota bátana til annarra veiða og á öðrum fiskislóðum ef þannig ber undir.

Bátarnir fimm verða tuttugu metra langir og verða að líkindum smíðaðir í Tyrklandi, að sögn Alfreðs Tulinius skipahönnuðar og stjórnarformanns Nautic. Skrokkurinn verður úr stáli en brúin úr áli eða plasti. Ætlunin er að búa skipið metanólknúnum sprengihreyfli til framleiðslu á rafmagni sem að lokum knýr skipið áfram. Þetta á þó aðeins við þar sem innviðir bjóða upp á slíka mótora, svo sem hér á landi, segir Alfreð í samtali við Fiskifréttir

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV