Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Funduðu samtals í 125 klukkustundir

í fangageymslu lögreglunnar í Borgarnesi þar sem kjörgögn alþingiskosnings 2021 í NV kjördæmi voru geymd.
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa fundaði í rúmlega 125 klukkustundir áður en hún skilaði niðurstöðu sinni. Að formanninum undanskildum fengu nefndarmenn ekki sérstaklega greitt fyrir störf sín.

Nefndin kom fyrst saman þann 4. október og sagði formaður nefndarinnar þá að nefndin þyrfti nokkra fundi til að ljúka störfum. Þeir urðu öllu fleiri en það, því þegar uppi var staðið urðu fundirnir 34. Afraksturinn, rúmlega 90 blaðsíðna greinargerð sem Alþingi fjallar um í dag, var afhentur kjörbréfanefnd á þriðjudaginn.

Alls fundaði nefndin í 125 klukkustundir og ellefu mínútur. Stysti fundur nefndarinnar tók einungis fimm mínútur en sá lengsti níu klukkustundir. Á meðan sátu aðrir þingmenn heima og biðu eftir því að nefndin lyki störfum.

Nefndarmenn fengu ekki aukalega greitt fyrir störf sín, að undanskildum formanninum Birgi Ármannssyni sem fékk 15 prósenta álag á þingfararkaup, eða tæplega 193 þúsund krónur sem er það sama og formenn annarra þingnefnda fá.

Nefndina skipuðu níu þingmenn og tveir áheyrnarfulltrúar. Samkvæmt samantekt Alþingis sóttu fjórir þingmenn alla fundina 34, þau Birgir Ármannsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Allir fastir fulltrúar sóttu 31 fund eða fleiri að Hönnu Katrínu Friðriksson undanskilinni sem sótti 28 fundi. Hún var hins vegar áheyrnarfulltrúi og hafði sem slíkur ekki mætingarskyldu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var tilnefndur áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í nefndinni en mætti ekki á neinn fund. Á þriðjudaginn birtist tilkynning á vef Alþingis að Sigmundur Davíð yrði í leyfi frá þingstörfum og tekur Anna Kolbrún Árnadóttir sæti hans á meðan.

Magnús Geir Eyjólfsson