Fréttir: Kjörbréf, flóttamenn og ferðagjöf

25.11.2021 - 18:37
Atkvæði verða greidd á níunda tímanum í kvöld á Alþingi um þrjár tillögur vegna talningarmálsins í Norðvesturkjördæmi. Meirihluti kjörbréfanefndar vill staðfesta áður útgefin kjörbréf 63ja þingmanna.

Bretar og Frakkar varpa ábyrgðinni hvor á annan eftir að 27 flóttamenn drukknuðu í Ermarsundi í gærkvöldi. Það sem af er ári hafa 26 þúsund manns reynt að komast yfir sundið ólöglega.

Grundvallarreglur voru brotnar þegar ferðagjöf stjórnvalda var útdeilt í fyrra og hefur atvinnuvegaráðuneytinu verið gert að greiða hæstu stjórnvaldssekt í sögu Persónuverndar. 

Viðræður eru innan stjórnar KSÍ um hvort halda eigi þeirri venju að bjóða upp á áfengi að loknum landsliðsverkefnum. Formaðurinn segir uppsögn aðstoðarþjálfarans þungbæra. 

Nú þurfa þeir sem eiga erfitt með að komast í bólusetningu ekki lengur að örvænta því bólusetningabíllinn er kominn á kreik. Í dag var boðið upp á Pfizer og Janssen-sprautu inni í bílnum eða á vinnustað. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV