„Ég fór þangað, sem er auðvitað algjör sturlun“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég fór þangað, sem er auðvitað algjör sturlun“

25.11.2021 - 13:10

Höfundar

„Mér fannst hann dásamlegur og ég var svo glöð að hann var alheilbrigður með tíu fingur og tíu tær. Allt virtist eðlilegt, dásamlegt og fallegt barn,“ segir Kristjana Stefánsdóttir söngkona og móðir Lúkasar sem er trans drengur. Það var áfall fyrst að komast að því að hann væri trans en svo áttaði hún sig á því að hann hefði alltaf verið strákur.

Kristjana Stefánsdóttir tónlistarkona eignaðist soninn Lúkas fyrir átján árum. Þegar hann fæddist og þangað til hann var sextán ára gamall taldi hún hann vera stúlku. Kristjana er gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Okkar á milli sem er á dagskrá í kvöld, þar sem hún rifjar meðal annars upp augnablikið þegar hún fékk son sinn fyrst í fangið. „Fyrsta sem ég hugsaði var: Vá, mér finnst hann svo líkur pabba. Og svo voru alls konar tilfinningar sem komu,“ segir hún. „Mér fannst hann dásamlegur og ég var svo glöð að hann var alheilbrigður með tíu fingur og tíu tær. Allt virtist eðlilegt, dásamlegt og fallegt barn.“

Hann var samkvæmt móðurinni afar sjarmerandi krakki, skýr til augnanna og mikill karakter. Hún hafði haft áform um að fara til Evrópu að syngja djass en þegar hún eignaðist barnið breyttist forgangsröðunin. „Þetta er það besta sem fyrir mig hefur komið. Einhver karríer er bara hjóm við hliðina á því að eiga svona frábært barn“ segir hún.

Frá því Lúkas var fjögurra ára neitaði hann að ganga í pilsum og kjólum. Hann var pabbinn í öllum mömmuleikjum og þegar hann fermdist klippti hann á sér hárið og fékk sér jakkaföt. Fljótlega upp úr því tilkynnti hann móður sinni að hann væri lesbía. „Ég bara: ókei elskan mín, bara flott. Unglingsárin, þetta er tíminn til að finna út úr þessu,“ segir hún.

En svo tilkynnti drengurinn mömmu sinni að hann væri strákur. „Þetta kom allt heim og saman en ég ætla að vera alveg hreinskilin með að þetta var áfall. Ég fékk svona svipaða tilfinningu og þegar ég fékk símtalið þegar pabbi dó,“ segir Kristjana. „Ég kólnaði öll upp að innan. Ég var rosalega reið, fór inn í einhvern rosalegan ótta og það sem maður á aldrei að gera, ég fór og gúgglaði bara trans,“ hún segist betur hafa sleppt því . „Ég endaði í einhverju svona, svartri holu af einhverjum misheppnuðum aðgerðum og einhvers konar rugli. Lesbíur sem héldu að þær væru trans en hættu við og litu bara hræðilega illa út. Ég fór þangað sem er auðvitað bara algjör sturlun.“

Kristjana Stefánsdóttir segir sögu sína í þættinum Okkar á milli sem er á dagskrá á RÚV klukkan 20:05.