
Atkvæði greidd á ný um Andersson á mánudag
Ótrúlegar vendingar urðu á þinginu í gær þegar Andersson sagði af sér embætti sjö tímum eftir að þingið hafði staðfest hana sem forsætisráðherra. Og í raun áður en hún tók við sem forsætisráðherra.
Mats Knutson, stjórnmálaskýrandi sænska ríkissjónvarpsins, segir gærdaginn hugsanlega þann furðulegasta í sænskri stjórnmálasögu.
Andersson baðst lausnar eftir að græningjar slitu stjórnarsamstarfinu. Það hafði þó ekki með kjör Andersson að gera heldur þá staðreynd að nokkrum klukkustundum eftir kjörið hafði ríkisstjórninni mistekist að koma fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið.
Þess í stað var frumvarp stjórnarandstöðunnar samþykkt, og gátu græningjar ekki hugsað sér að stjórna við þær aðstæður.
Andersson, sem er formaður Jafnaðarmannaflokksins, sagði í kjölfarið af sér, en tilkynnti að hún væri þó reiðubúin að leiða ríkisstjórn sem jafnaðarmenn sætu einir í.
Græningjar hafa gefið út að þeir muni verja þá stjórn falli með hlutleysi sínu, og sama gildir um Miðflokkinn og Vinstriflokkinn, þá tvo flokka sem áður vörðu samsteypustjórn jafnaðarmanna og græningja falli. Standist það allt saman verður Andersson því staðfest sem forsætisráðherra á nýjan leik á mánudag með tæpasta mögulega mun. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna eru 174, en þingmenn jafnaðarmanna og þriggja fyrrnefndra stuðningsflokka eru 175.
Hver er núna forsætisráðherra?
Spaugileg uppákoma varð á blaðamannafundi, sem Andersson hélt í gær eftir að hún tilkynnti um afsögn sína. Blaðamaður finnska ríkisútvarpsins, YLE, var álíka ruglaður og aðrir á framvindunni, og spurði:
Afsakið, ég er útlenskur blaðamaður. Hver stýrir Svíþjóð akkúrat núna? Hver er forsætisráðherra?
við hlátur viðstaddra.
Andersson gat sjálf ekki varist brosi þegar hún viðurkenndi að hún hefði í raun sagt af sér sem forsætisráðherra áður en hún tók við formlega.
„Ég hafði jú ekki tekið við embætti forsætisráðherra og því er það enn Stefan Löfven sem er forsætisráðherra í starfstjórn.“