Allt sem átti að vera í lagi var í ólagi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Allt þetta helsta sem þarf að vera í lagi var ekki í lagi í þessu máli,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar um snjallforrit sem hannað var til að dreifa ferðagjöf stjórnvalda.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hugbúnaðarfyrirtækið YAY ehf. fengu í dag hæstu sekt sem Persónuvernd hefur gefið út vegna alvarlegra brota gegn helstu ákvæðum persónuverndarlaga í tengslum við ferðagjöf stjórnvalda.

Allir landsmenn 18 ára og eldri fengu í fyrra ferðagjöf hjá stjórnvöldum og var markmiðið að styrkja ferðaþjónustuna í landinu á tímum Covid. Til að sækja ferðagjöfina þurfti að sækja stafræn gjafabréf í gegnum smáforrit sem hannað var af YAY ehf. 

Persónuvernd barst fjöldi ábendinga um að við notkun ferðagjafarinnar væri krafist umfangsmikilla persónuupplýsinga og hófst frumkvæðisathugun í október í fyrra. Niðurstaða þeirrar athugunar var hæsta sekt sem Persónuvernd hefur nokkuð tíma gefið út. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið var sektað um 7,5 milljónir og YAY ehf um fjórar milljónir. Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar.

„Það sem er undir í þessu máli er það að helstu ákvæði persónuverndarlaga voru brotin í því. Það er nú bara það sem þetta mál gengur út á. Það eru þessar grundvallarreglur persónuverndarlöggjafarinnar sem voru brotnar, til dæmis um fræðsluskyldu, gagnsæi og öryggi. Allt þetta helsta sem þarf að vera í lagi var ekki í lagi í þessu máli,“ segir Helga.

Sóttar voru upplýsingar um kyn og aldur án lagaheimildar, en auk þess aflað víðtækra og ónauðsynlegra aðgangsheimilda í símtækjum þeirra notenda sem hlóðu niður forritinu,  meðal annars trúnaðarupplýsingar í dagatali.

Þótt þær upplýsingar hafi ekki verið sóttar þá hefði getað orðið mikið tjón ef þær upplýsingar hefðu ratað í rangar hendur. „Þetta var í raun og veru fyrsta skrefið sem fyrirtækið gerði til að gera þær aðgengilegar og aðrar upplýsingar sem hefði verið hægt að bæta við voru staðsetningarupplýsingar fólks, myndavél, net- og skjalastjórnun, tengiliðaskrá og alls kyns upplýsingum sem þarna var búið að forrita fyrsta skrefið í aðgengileika að.“

Ekki náðist í ráðherra ferðamála í morgun en í yfirlýsingu frá ráðuneytinu eru mistökin hörmuð og því borið við að verkefnið hafi verið unnið í tímaþröng. Talar ráðuneytið um minni háttar hnökra í upphafi verkefnisins en heilt yfir hafi framkvæmd Ferðagjafarinnar gengið vel.