Allt frá staðfestingu talningar til nýrra kosninga

25.11.2021 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúar í kjörbréfanefnd skiluðu af sér fjórum álitum og tillögum um hvernig ætti að bregðast við stöðunni vegna talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins vilja samþykkja kjörbréf allra þingmanna á grundvelli annarrar talningar og ljúka þar með málinu. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skila sitt hvoru álitinu og samhljóða tillögum um uppkosningu í Norðvestri. Píratinn í nefndinni vill kjósa á landinu öllu.

Meirihlutinn í nefndinni vill staðfesta öll 63 kjörbréfin sem landskjörstjórn gaf út, fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna vilja staðfesta kjörbréf 47 kjördæmakjörinna þingmanna í öðrum kjördæmum. Fulltrúi Pírata vill ekkert kjörbréf staðfesta.

Ekki nægir annmarkar til ógildingar

Fundur hófst á Alþingi klukkan eitt á því að Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar, mælti fyrir nefndaráliti meirihluta kjörbréfanefndar en að því standa þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins í kjörbréfanefnd.

Birgir sagði að í ljósi umfangs málsins, talningar í Norðvesturkjördæmi, hafi verið gengið lengra en áður við að afla upplýsinga um atburðarásina og til að varpa ljósi á gang málsins. Leggur meirihlutinn til að seinni talning standi og þar með séu útgefin 63 kjörbréf gild. Þrátt fyrir ýmsa annmarka þá séu lagaskilyrði ekki fyrir hendi til að ógilda kosningu sagði Birgir í lok máls síns.

Þórunn og Svandís vilja uppkosningu

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar og fulltrúi hennar í kjörbréfanefnd, vill að fram fari uppkosning í Norðvesturkjördæmi vegna alþingiskosninganna og það felst í nefndaráliti hennar vegna málsins. Þórunn segir að ekki sé hægt að upplýsa með fullnægjandi hætti að varðveisla kjörgagna hafi verið í lagi, fjölgun ógildra atkvæða sé óútskýrð og fleiri annmarkar séu á ferlinu sem að hennar mati eigi að leiða til ógildingar kosninganna í kjördæminu. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem situr í kjörbréfanefnd fyrir Vinstri græn segir í nefndaráliti sínu að það sé gríðarlega mikilvægt að Alþingi vandi sig í þessu máli. Hún segir lykilatriði að meðferð og varðveisla kjörgagna verði að vera hafin yfir allan vafa en ljóst sé að verulegir annmarkar voru á því í Borgarnesi. Þess vegna verði að úrskurða kosninguna í kjördæminu ógilda en gilda í öllum öðrum kjördæmum. 

Umræður um niðurstöðu kjörbréfanefndar vegna talningar í Norðvesturkjördæmi standa enn á Alþingi. 

Segir að breyta þurfi stjórnarskrá

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og fulltrúi flokksins í kjörbréfanefnd, segir að svo alvarlegir ágallar séu á framkvæmd talningar að ógilda verði kosningarnar í Norðvesturkjördæmi. Hann segir uppkosningar í einstaka kjördæmum vera úrelt úrræði því uppkosning í einu kjördæmi setti það í yfirburðastöðu gagnvart öðrum kjördæmum. 

Björn segir að menn verði að læra af málinu að fara af virðingu með kjörgögn og gæta þeirra betur héðan í frá og segir ótækt að slík meðferð hafi engar afleiðingar miðað við núgildandi lagabókstaf. Hann segir augljóst eftir atburðarás síðustu vikna að nauðsynlegt sé að breyta 46. grein stjórnarskrárinnar. Að mati Björns Levís er ótækt að Alþingi skeri úr því hvort þingmenn séu löglega kosnir eða hvort að þingmaður hafi misst kjörgengi.