Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vonast til að ljúka talningarumræðunni á morgun

24.11.2021 - 18:09
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Kosið verður um þrjár tillögur á Alþingi á morgun í tengslum við talningarmálið í Norðvesturkjördæmi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forseti Alþingis, vonast til að hægt verði að ljúka umræðunni með atkvæðagreiðslu á morgun. Ef það verður er ríkisstjórninni ekkert að vanbúnaði að kynna nýja ríkisstjórn og nýjan stjórnarsáttmála. 

 

Kjörbréfanefnd var kosin á þingsetningarfundi í gær og er hún skipuð sama fólki og var í undirbúningskjörbréfanefnd. Sú nefnd fundar enn, enda stendur til að leggja fram tillögur nefndarmanna í fyrramálið.

Starfandi forseti Alþingis hélt fund síðdegis með formönnum allra þingflokka til þess að fara yfir það með hvaða hætti umræðan skuli fara fram á morgun, það er umræðan um greinargerð kjörbréfanefndar vegna talningar í Norðvesturkjördæmi og tillögur. Stefnt er að því að sömu reglur gildi og við aðra umræðu lagafrumvarpa. 

Greitt atkvæði um að minnsta kosti þrjár tillögur 

„Við ætlum náttúrlega í fyrsta lagi að vanda okkur mjög með morgundaginn,“ segir Þorgerður Katrín. „Þetta verður sérstakur dagur en um leið þá er skýrt að það verða líklega þrjár tillögur sem við munum á endanum greiða atkvæði um.“

Liggur það fyrir að þær eru þrjár? „Já mér sýnist það að þær verði þrjár. Já, þær verða allavega þrjár.“  

Og þar er átt við tillögu um að seinni talning gildi og þar með séu útgefin kjörbréf 63ja þingmanna í gildi, uppkosning í Norðvesturkjördæmi eða kosið verði aftur alls staðar á landinu.

Hvað sérðu fyrir þér að þessi umræða geti staðið lengi? „Það er erfitt að segja til um það en ég ætla að leyfa mér að binda vonir við það að þetta klárist á morgun en þetta fer auðvitað eftir hverjum og einum þingmanni. Þetta er risamál; þetta fer eftir samvisku og sannfæringu hvers og eins og hver þingmaður þarf einfaldlega að fá þann tíma sem hann kýs. En eins og ég segi, ég bind vonir við þetta þó klárist á morgun,“ segir Þorgerður Katrín. 

Er stefnt að atkvæðagreiðslu á morgun? „Ég vona það að við náum því að það verði atkvæðagreiðsla í síðasta lagi annað kvöld.“

Kærði oddvita yfirkjörstjórnar til lögreglu

Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hefur kært oddvita yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi til lögreglu fyrir mögulegt kosningasvindl þar sem síðari talning atkvæða í kjördæminu hafi að hans mati ekki verið í samræmi við lög og fleira. 

„Mjög ólíklegt að þetta hafi áhrif á niðurstöðuna en þetta hefur áhrif á framtíðina. Framtíðin lítur þá miklu öðruvísi út. Þannig að þeir sem eru að sinna framkvæmd kosninga, að þeir verða að vanda sig betur. Þannig að þeir geri það löglega, vegna þess að annars eiga þeir á hættu að fá jafnvel mjög ríkar sektargreiðslur og þarna eins og ég nefni átta önnur brot sem geta varðað sektir og eitt sem getur varðað hegningarlög.“

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV