Spillingin sigrar í 17. aldar óperu

MÁ AÐEINS NOTA Í TENGSLUM VIÐ FLUTNING ÓPERU FRÁ WIENER STAATSOPER 25.11. 2021.
 Mynd: Michael Pöhn/Wiener Staatsoper  - Wiener Staatsoper

Spillingin sigrar í 17. aldar óperu

24.11.2021 - 15:11

Höfundar

Í maí á þessu ári sýndi Ríkisóperan í Vín óperuna „Krýning Poppeu“ (L´Incoronazione di Poppea) eftir Claudio Monteverdi og verður hljóðritun frá sýningunni flutt á Óperukvöldi útvarpsins fim. 25. nóv. Óperan er frá árinu 1643, samin við texta eftir Giovanni Francesco Busanello, og byggð á raunverulegum atburðum sem gerðust í Rómaveldi til forna.

 

„Krýning Poppeu“ var síðasta ópera Monteverdis og þykir vera eitt besta verk hans. Hún var ein fyrsta óperan sem byggð var á sögulegum atburðum og lýsir spillingunni í Róm á tíma keisarans Nerós. Það þykir óvenjulegt að óperunni lýkur með sigri spilltu persónanna, Nerós og Poppeu, það er því ekki dyggðin sem sigrar, eins og algengast var í óperum. Hins vegar hefðu ítalskir áhorfendur 17. aldar vitað að sigur Nerós og Poppeu var skammvinnur; Neró myrti Poppeu árið 65 e. Kr. eða þremur árum eftir giftingu þeirra, og sjálfur fyrirfór hann sér árið 68 e. Kr.

Ástir Nerós og Poppeu

Í inngangi óperunnar deila gyðjur dyggða og örlaga um það hvor hafi meiri völd í heiminum. Ástarguðinn kemur og segist hafa mest völd þeirra allra og það skuli hann sanna með eftirfarandi sögu.

Sviðið er Rómarborg. Ottó kemur til þess að heimsækja sína heittelskuðu Poppeu, en sér varðmenn Nerós við hús hennar og gerir sér ljóst að hún er honum ótrú. Hann barmar sér yfir svikum hennar og fer. Neró og Poppea kveðjast ástúðlega. Arnalta, fóstra Poppeu, varar hana við afbrýðissemi og reiði Oktavíu keisaraynju, en Poppea er óhrædd. Seinna atriði þáttarins gerist í keisarahöllinni. Oktavía harmar svik Nerós. Neró segir fyrrverandi kennara sínum, heimspekingnum Seneca, að hann ætli að skilja við Oktavíu og giftast Poppeu. Þegar Seneca reynir að fá hann ofan af þessu verður Neró æfareiður og rekur hann burt. Poppea segir Neró að Seneca þykist stjórna ríkinu á bak við tjöldin. Í bræði sinni ákveður Neró að láta drepa Seneca. Þegar Neró er farinn reynir Ottó að fá Poppeu til að snúa aftur til sín, en árangurslaust. Aðalsmærin Drúsilla er hrifin af Ottó og í ástarsorg sinni trúlofast Ottó Drúsillu þótt hann finni að hann elskar Poppeu enn.

Heimspekingur deyr

Guðinn Merkúr segir Seneca að hann muni brátt deyja. Sendiboði frá Neró kemur með skipun frá keisaranum um að Seneca skuli stytta sér aldur. Seneca lætur útbúa sitt síðasta bað og segir: „Straumur míns saklausa blóðs verður sem rauður dregill á vegi mínum til dauðans.“

Í keisarahöllinni daðrar skjaldsveinninn Valleto við hirðmey og Neró syngur drykkjusöngva og ástarsöngva með skáldinu Lucano. Ottó finnur að hann getur ekki hætt að elska Poppeu. Hann verður skelfingu lostinn þegar Oktavía keisaraynja skipar honum að drepa Poppeu. Hún hótar að láta Neró taka hann af lífi ef hann hlýðir ekki og ráðleggur honum að dulbúa sig í kvenfötum. Ottó neyðist til að samþykkja þetta og biður Drúsillu að lána sér kvenföt.

Í garði Poppeu syngur Arnalta hana í svefn, en ástarguðinn horfir á. Ottó kemur í kvenfötum og reiðir upp sverð sitt til að drepa Poppeu, en ástarguðinn slær sverðið úr hendi honum. Arnalta og Poppea sjá Ottó flýja og vegna fatanna halda þær að hann sé Drúsilla. Ástarguðinn syngur sigri hrósandi: „Ég verndaði hana.“

Poppea krýnd

Drúsilla er handtekin fyrir morðtilræðið við Poppeu. Vegna ástar sinnar á Ottó segir hún ekkert um hann. Neró dæmir Drúsillu til þess að þola kvalafullan dauða, en þá kemur Ottó og játar sekt sína, segist einn hafa verið að verki vegna skipunar frá Oktavíu keisaraynju. Neró blíðkast, hann lætur nægja að senda Ottó í útlegð og Drúsilla ákveður að fylgja honum. Oktavía er einnig dæmd til útlegðar og ekkert stendur nú í vegi fyrir brúðkaupi Nerós og Poppeu. Oktavía kveður Róm, en Poppea er krýnd við hátíðlega athöfn. Óperunni lýkur með ástardúett Nerós og Poppeu meðan ástarguðinn og Venus móðir hans horfa á.

Flytjendur í Ríkisóperunni í Vín

Í hlutverki Nerós er Kate Lindsey, en Slávka Zamecnikova fer með hlutverk Poppeu. Xavier Sabata er í hlutverki Ottós, Christina Bock syngur Oktavíu, og Willard White Seneca. Vera-Lotte Boecker syngur Drúsillu, og er einnig í hlutverki Dyggðarinnar. Thomas Ebenstein syngur Arnöltu, Isabel Signoret er í hlutverki Ástarguðsins, Johanna Wallroth er í hlutverki Örlagagyðjunnar og Aurora Martens syngur gyðjurnar Pallas og Venus. Contentus Musicus-sveitin í Vín leikur, stjórnandi er Pablo Heras-Casado.

Mynd: Úr sýningu Ríkisóperunnar í Vín. Frá vinstri: Camilo Mejía Cortés (dansari), Kate Lindsey (Neró) og Slávka Zamecnikova (Poppea). Ljósmyndari Michael Pöhn/Wiener Staatsoper GmbH.

Óperan verður flutt á Óperukvöldi útvarpsins, fim. 25.11. 2021 kl. 19.00.