Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Meira kom í ríkiskassann en búist var við

24.11.2021 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ríkissjóður var rekinn með 138 milljarða króna halla fyrsti níu mánuði ársins. Það er þó fimmtíu og einum 51 milljarði minna en áætlanir í upphafi árs gerðu ráð fyrir.

Uppgjörið ber með sér að hagkerfið hafi tekið hraðar við sér eftir faraldurinn en stjórnvöld áætluðu. Skýrist betri afkoma af því að meiri tekjur berast í ríkiskassann en vænst var. Mestu munaði um neysluskatta en skatttekjur af vöru og þjónustu voru 24 milljarða umfram áætlanir. Stærstur hluti af því er virðisaukaskattur sem bendir til þess að neysla hafi verið umfram áætlanir. Þá skilaði áfengisgjaldið tveimur milljörðum meira í kassann en búist var við.

Á útgjaldahliðinni eru frávikin einna helst á sviði heilbrigðismála. Útgjöld vegna sjúkrahúsþjónustu og heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa eru umtalsvert umfram áætlanir.

Faraldurinn litar flesta liði uppgjörsins. Þannig aukast fjárfestingar um 35 prósent milli ára vegna sérstaks fjárfestingaátaks sem farið var í til að bregðast við áhrifum COVID-19. Mestar fjárfestingarnar liggja í samgöngum og sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu. Langtímaskuldir ríkissjóðs jukust um 138 milljarða. Það skýrist að mestu af útgáfu ríkisbréfa sem gefin voru út til að fjármagna rekstur ríkissjóðs. Heildarskuldir ríkissjóðs eru nærri tvö þúsund og fimm hundruð milljarðar. Á móti nema eignir rúmlega tvö þúsund og sex hundruð milljörðum.

Magnús Geir Eyjólfsson