ÍBV klifrar enn upp töfluna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

ÍBV klifrar enn upp töfluna

24.11.2021 - 19:35
ÍBV vann sinn sjöunda leik í Olísdeild karla í handbolta í kvöld þegar liðið lagði Stjörnuna að velli, 32-28. ÍBV er nú jafnt Val í 2.-3. sæti en Stjarnan situr eftir í fimmta sætinu.

Stjörnumenn voru með frumkvæðið á heimavelli sínum fyrstu 20 mínúturnar í kvöld og voru mest þremur mörkum yfir. Eftir að ÍBV jafnaði var allt í járnum til leikhlés en staðan var 16-15 fyrir Stjörnuna í leikhléi.

Sama jafnræði var framan af seinni hálfleik en um miðjan hálfleikinn fór ÍBV að herða tökin. Þeir sigu fram úr og voru mest fjórum mörkum yfir, sem var einmitt munurinn á liðunum í leikslok, 32-28 fyrir ÍBV. Rúnar Kárason var markahæstur hjá ÍBV með 6 mörk og hjá Stjörnunni skoraði Hafþór Vignisson 7. 

Þetta var sjöundi sigur ÍBV í níu leikjum í deildinni og eru þeir með 14 stig í 2.-3. sæti ásamt Val. Haukar eru efstir með 16 stig en hafa leikið einum leik meira. Stjarnan er með 12 stig í fimmta sæti og hefur þeim lítillega fatast flugið eftir að hafa unnið fimm fyrstu leiki sína í deildinni. Tapið í kvöld var það þriðja í síðustu fjórum leikjum.