Grundfirðingar og Patreksfirðingar takast á við hópsmit

24.11.2021 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjórðungur allra Grundfirðinga eru nú ýmist í einangrun eða sóttkví og enn greinast smit utan sóttkvíar. Skólahald á Patreksfirði liggur niðri út þessa viku vegna hópsmits sem kom upp í gær.

Í Grundarfirði fjölgar smitum enn og eru nú 38 í einangrun og 175 í sóttkví, meirihlutinn börn. Þetta er um fjórðungur bæjarbúa og eru þá ótaldir foreldrar eða forráðamenn sem eru heima með börnum í sóttkví eða einangrun. Allt skólahald og tómstundastarf liggur niðri út vikuna og hefur Rauði krossinn boðist til þess að fara í matvörubúð fyrir þau sem ekki hafa færi á að kaupa í matinn sjálf. 

Hætt að þora að spá fyrir um framhaldið

Enn greinast smit utan sóttkvíar. Mikill fjöldi fór í sýnatöku í morgun, þar á meðal um fjörutíu börn og tíu starfsmenn leikskólans Eldhamra. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri segir ástandið íþyngjandi og erfitt sé að segja til um framhaldið. 

„Ég er bara hætt að þora að spá neinu, ég er ekki vaxin til þess. En það sem við erum að vonast til er að með þeim ráðstöfunum sem við erum að gera í vikunni þá munum við ná utan um þetta frekar hratt.” 

Björg segir að ekki hafi þurft að kalla til bakverði vegna starfsemi dvalarheimilis eða heilsugæslu. Þó hafi Heilbrigðisstofnun Vesturlands sent starfsfólk úr Stykkishólmi til að annast sýnatöku. 

„Og stofnunin er viðbúin því að ef eitthvað bregst hér heima fyrir þá verður sent fólk.” 

Enginn skóli á Patreksfirði út vikuna

Þá eru nú sautján í einangrun og 44 í sóttkví á sunnanverðum Vestfjörðum. Meirihlutann má rekja til hópsmits á Patreksfirði. Þar hefur skólahald í grunnskólanum verið slegið af út vikuna vegna smita á meðal starfsfólks og nemenda. Þá er nú heimsóknabann á legudeild Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Sýnataka fer fram á félagsheimilinu þar í dag.