Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gott holdafar vísbending um uppsveiflu rjúpnastofnsins

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Holdafar rjúpna er mun betra en í fyrra og með því besta sem mælst hefur frá því farið var að fylgjast með viðgangi rjúpna 2006. Fuglafræðingur segir þetta geta boðað betri tíma fyrir stofninn.

Rúmlega 200 fuglar skoðaðir

Rjúpnaveiðitímabilið stendur nú sem hæst en Náttúrufræðistofnun gaf það út fyrir tímabilið að aðeins mætti veiða 20 þúsund fugla. Stofnunin skoðaði ástand rjúpna nú í haust og voru rúmlega 200 fuglar mældir. Þeir voru skotnir fyrstu tvær vikur mánaðarins, flestir í Þingeyjarsýslum. Ein grænlensk rjúpa var í safninu, ungur karri sem var skotinn á Þverárdal í Öxarfirði 12. nóvember. Sú var ágætlega haldin en var ekki höfð með í úttektinni því þar er þess freistað að meta ástand íslenskra rjúpna eingöngu.

„Besta mæling sem við höfum fengið“

Niðurstöðurnar sýndu tölfræðilega marktækan mun á holdafari milli ára sem mældist nú með besta móti. Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun segir jákvæð teikn á lofti. „Niðurstöðurnar úr þessum mælingum núna sýndu að fuglarnir voru í mjög góðum holdum, bæði fullorðnir fuglar og ungir fuglar, reyndar besta mæling sem við höfum fengið fyrir fullorðna fugla síðan við byrjuðum á þessu. Þannig að mögulega er þetta ávit á að það dregur eitthvað úr náttúrulegum afföllum í vetur og að uppsveiflan fari senn að byrja aftur,“ segir Ólafur Karl. 

Grænlenskar rjúpur hér á landi

Nú hafa grænlenskar rjúpur aðeins verið að þvælast hingað til Íslands, hvað veldur?

„Þetta virðist ekki vera í öllum árum en í sumum árum þá gerist þetta. Í sumum árum koma þær hérna í örugglega hundraða eða þúsundavís frá Grænlandi en rjúpan er farfugl á Grænlandi. Þessir fuglar sem byggja norðurhéröðin, þeir sækja suður á haustin og það er við þessi ferðalög á haustin sem þeir villast af leið.“

Mynd með færslu
 Mynd: NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN ÍSLANDS - RÚV
Við mælingar á rjúpu í haust