Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Flokkar fimm þúsund pakka á klukkustund

24.11.2021 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: Íslandspóstur - RUV
Pakkasendingum innanlands fjölgaði um nærri helming á síðasta ári og hefur Íslandspóstur brugðist við með því taka í notkun nýja flokkunarvél til að ráða við aukið álag.

Nýja vélin er smíðuð í Danmörku og getur flokkað um fjögur til fimm þúsund pakka á klukkustund. Gamla vélin gat mest flokkað eitt þúsund pakka og því fimmfaldast afköstin með tilkomu nýju vélarinnar.

„Á síðasta ári lentum við í smá vandræðum. Það var svo gríðarlega mikið magn af pakkasendingum fyrir jólin í fyrra. Þannig að við vildum gera betur. Eitt af því sem við gerðum var að kaupa nýja pakkaflokkunarvél inn í póstmiðstöðina,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir forstjóri Íslandspósts.

Á milli áranna 2019 og 2020 fjölgaði innlendum pakkasendinum um 40 prósent. Covid-faraldurinn hafði þar mikil áhrif en margt bendir til að þessi aukning sé komin til að vera.

„Við áttum daga í fyrra þar sem við vorum með 25 þúsund pakka á dag. Þannig að þetta er gríðarlegt magn sem fer hérna í gegn,“ segir Þórhildur.

Verulega hefur hins vegar dregið úr bréfasendingum á síðustu tíu árum.

„Og það voru svona 60 milljón bréf sem fóru í gegnum bréfaflokkunarvélarnar þá en í dag eru þetta í kringum 10 milljón bréf. Þannig að það hefur minnkað mjög mikið bréfasendingum á milli fólks og frá fyrirtækjum til einstaklinga og annað slíkt,“ segir Þórhildur.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV