Erfiðir mánuðir framundan í Evrópu

24.11.2021 - 15:47
Mynd með færslu
Andrea Ammon, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Evrópu. Mynd: ECDC
Sóttvarnastofnun Evrópu skorar á ríki Evrópusambandsins að grípa þegar í stað til aðgerða til að draga úr kórónuveirusmitum. Að öðrum kosti séu verulega erfiðir mánuðir fram undan.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Andrea Ammon, yfirmaður Sóttvarnastofnunarinnar sendi frá sér í dag. Að hennar sögn verður útlitið í desember og janúar afar dökkt ef ekki verður hægt á útbreiðslu veirunnar. Hún mælti með því að allir sem orðnir eru átján ára og eldri fengju örvunarskammt af bóluefni gegn veirunni, en fjörutíu ára og eldri fengju forgang.

Þá skrifaði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á Twitter að þungt væri fyrir fæti í Evrópu vegna fjölda smita. Hún sagði að allir fullorðnir íbúar Evrópusambandsríkja ættu að hafa aðgang að örvunarskammti, einkum fjörutíu ára og eldri og þeir sem viðkvæmastir eru fyrir veirusmitum.

Evrópu- og Mið-Asíudeild Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar varaði við því í gær að sjö hundruð þúsund eða fleiri íbúar á því svæði ættu eftir að deyja af völdum COVID-19 áður en veturinn yrði á enda. Stofnuninni bárust tilkynningar um rúmlega 2,5 milljónir nýrra tilfella í álfunni í síðustu viku og hátt í þrjátíu þúsund dauðsföll.

Innan við sjötíu prósent íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu hafa að sögn stofnunarinnar verið bólusettir að fullu við kórónuveirunni.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV