Elsku besti raðmorðingja-snúðurinn okkar snýr aftur

Mynd: Showtime / Showtime

Elsku besti raðmorðingja-snúðurinn okkar snýr aftur

24.11.2021 - 17:30

Höfundar

Spennuþáttunum um Dexter Morgan, raðmorðingjann vinalega, tekst það ótrúlega afrek að fá áhorfandann til að finna til með kaldrifjuðum ódæðismanni og að vona heitt að hann komist upp með að fela öll líkin sín. Þáttunum lauk með áttundu seríu árið 2013 en þættirnir snéru aftur með aukaþáttaröð á dögunum. Júlía Margrét Einarsdóttir gagnrýnandi Lestarinnar er að horfa á þættina.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Við þekkjum þá lífseigu reglu í bókmenntum, kvikmyndum og sjónvarpsefni að aðalsöguhetjan er gjarnan sköpuð þannig að hún er að minnsta kosti að einhverju leyti sympatísk. Oftast er það snemma tryggt að áhorfandi geti haft samúð með aðalpersónunni, gjörðum hennar og að auðvelt sé að tengja á einhvern hátt við vandamál hennar og ákvarðanir. Af svipaðri ástæðu eru þær persónur sem við eigum að halda með oftast fallegar að sjá svo það sé lystaukandi að halda í ferðalag með þeim. Í vinsælum þáttum kynnumst við gjarnan breyskum fegurðarbombum sem líkt og við meina vel en gera mistök, breyta stundum rangt en samt þannig að áhorfandinn skilji. Geti hugsað: Ah ég hef verið þarna eða ég hefði mögulega brugðist svipað við. Þú getur þetta kjáninn þinn, áfram þú!

En svo eru þættir þar sem tekst að virkja þessa samúð gagnvart fullkomlega ósympatískum manneskjum sem taka siðlausar ákvarðanir í aðstæðum sem fæst okkar myndu nokkurn tímann lenda í. Þar eru spennuþættirnir um Dexter frábært dæmi. Þeir fjalla sannarlega um öðruvísi hetju, sjarmatröllið Dexter Morgan sem er reyndar sætur og brosmildur en ekki endilega manneskja sem auðvelt er að spegla sig í. Hann er góður granni, hjálpsamur samstarfsfélagi vina sinna í lögreglunni í Miami þar sem hann starfar í tæknideildinni. Dexter á kjaftfora en ótrúlega trausta uppeldis- og fóstursystur sem einnig starfar hjá lögreglunni, eignast yndislega konu sem alltaf hefur trú á traustu brosi hans og saman eignast þau dásamlegan dreng. Allt eins og best er á kosið nema það er svo sannarlega hængur á.

Líf Dexters á sér nefnilega ansi myrkar hliðar. Honum fylgir martraðakenndur skuggi og blóðþorsti sem hann finnur sig knúinn til að svala reglulega og þá dugir ekkert annað en mannablóð. En það má auðvitað enginn vita og þar flækjast málin. Það er ekki til neinn hefðbundinn leiðarvísir sem kennir fólki að vinna heiðarlega vinnu, vera vinur og elskhugi á daginn en brytja niður lík og losa sig við á kvöldin. Dexter reynir þó sitt besta að skapa harmoníu í þessum flóknu aðstæðum.

Hér er því ekki á ferðinni hefðbundinn aðalkarakter með kunnugleg vandamál heldur morðóður einstaklingur sem allavega í fyrstu þáttum virðist vera fullkomlega siðblindur og skeytingarlaus um fólkið sem hann myrðir en líka að einhverju leyti um þá sem elska hann.

Átta seríur af þáttunum um Dexter voru eftirminnilega sýndar á árunum 2006 til 2013 og vöktu þær mikla hrifningu, urðu á meðal vinsælustu þáttaraða Bandaríkjanna. Fyrsta serían byggir á skáldsögunni Dreaming Dexter eftir Jeff Lindsay, þeirri fyrstu úr bókaseríu um Dexter, en hinar þáttaraðirnar byggðu ekki beint á bókunum.

Ólíkindatólið Dexter Morgan er leikinn af Michael C. Hall sem hefur ítrekað hlotið gyllta hnöttinn fyrir túlkun sína og er vel að því kominn. Dexter þessi varð munaðarlaus aðeins þriggja ára, þegar hann horfði með sínum barnslegu augum á móður sína myrta á hrottalegan hátt. Það var Harry Morgan lögreglumaður í Miami sem ættleiddi hann sem ungan dreng en hann áttaði sig fljótt á því að barnið byggi yfir myrkum sálarkimum sem áfallið hafði skilið eftir sig. Óslökkvandi siðlausa þrá til að meiða og drepa, og þeirri þrá þurfti að beina í rétta átt áður en það yrði um seinan.

Harry hjálpaði drengnum að gera það og kenndi honum reglu sem hann fer eftir, að murka ekki lífið úr neinum nema sá hinn sami sé sjálfur sekur um að níðast á öðru fólki. Svo hann stundar það meðfram starfi sínu hjá lögreglunni að láta blóð spýtast úr misindismönnum sem hann kynnist í gegnum vinnuna og drepur þegar kollegarnir líta undan. Lögreglan kemst vissulega að því að morðingi er á sveimi en grunar þó ekki að hann sé innan þeirra raða, að morðinginn sé sjálfur að rannsaka sín eigin morð. Sagan er knúin áfram af brennandi von um að Dexter takist að fremja ódæðisverk sín, búta líkin í sundur og komast upp með glæpinn en auðvitað stendur sú von oft ansi tæpt þegar líður á þáttaröðina. Það er óvænt staða fyrir flesta áhorfendur, að samsvara sig með morðingja. En kannski einmitt það sem gerir þessa þætti svo skratti góða.

Sem fyrr segir virðist í fyrstu sem Dexter sé fullkomlega tilfinningalaus en þegar líður á söguna og árin virðist fara að votta fyrir fyrir einhverri væntumþykju og samvisku hjá honum. Fósturfaðir hans heitinn birtist honum reglulega og minnir hann á boðorðin sem hann kenndi honum, að drepa bara þá sem eru syndugir og hann heldur áfram að þykjast vera hefðbundinn borgari og eiga í samskiptum við fólk í kringum sig eins og honum sé ekki sama. En það verður fljótt ljóst að samband hans og fyrrnefndrar fóstursystur, Deb, byggir á gagnkvæmri virðingu og ást, jafnvel þó að brósi þurfi alltaf að fela fyrir henni þennan plássfreka hluta af sjálfum sér, morðæðið. Allar seríurnar hafa hingað til verið nokkuð vel heppnaðar. En líkt og aðrir áhorfendur og aðdáendur þáttanna fann ég fyrir gremju yfir vendingum í þáttaröðinni sem lýst hafði verið yfir að væri sú síðasta, þeirri áttundu.

Á þeim tíma höfðu þær fregnir borist úr heimi fræga fólksins að Michael C. Hall sem leikur Dexter og Jennifer Carpenter sem fer með hlutverk fóstursystur hans hefðu farið að stinga saman nefjum og þau giftu sig árið 2008. Mikið var spaugað með að systkini hefðu gengið í hnapphelduna en grínið varð minna fyndið þegar handritshöfundar ákváðu að kynda upp í rómans þeirra á milli í síðustu seríunni. Þá varð sem systir Dexters hefði orðið fyrir einhverju losti og allt í einu ákvað hún að sitt æðsta takmark væri að klæða uppeldis bróður sinn úr buxunum. Það var ekkert nema óþægilegt að horfa upp á, og fleira í þessum klaufalegu lokaþáttum vakti óánægju aðdáenda eins og mín.

Það greip því um sig mikil gleði þegar tilkynnt var núna átta árum síðar að Dexter myndi snúa aftur og hann fengi þá kannski tækifæri til að hljóta betri örlög, sem aðdáendur geta unað við. Dexter New Blood, minisería sem er framhald þeirrar fyrri, er mætt á skjáinn og var frumsýnd á Showtime og streymisveitunni Hulu 7. Nóvember. Nú eru þrír þættir orðnir að veruleika.

Dexter hefur flúið gamla líf sitt í Miami þar sem hann hefur verið talinn af. Hann hefur tekið upp nýtt nafn, skilið við störf sín fyrir lögregluna og nú starfar hann í verslun í litlum bæ sem nefnist Iron Lake og er í uppsveitum New York. Gamla upphafsstefið sem sýndi raðmorðingjaelskuna okkar svo kankvísan að elda sér morgunmat og heilsa glaður heiðum degi á meðan hann plottaði næstu blóðsúthellingar, er á brott og nú fáum við bara hljóð í slíðrum hnífa og blóðugt lógó. Dexter er ekkert að grínast lengur. Hann hefur skilið við fyrra líferni, er hættur að myrða og hefur myndað kumpánlegt samband við bæjarbúa og er byrjaður að hössla lögreglustjórann í bænum. Og honum stendur alls ekki á sama lengur, hann vill verða góður maður sem er alveg öfugt við það sem við kynntumst af Dexter í fyrstu.

En fortíðin leitar hann enn uppi. Það er ekki lengur draugur pabba sem birtist honum heldur systur hans, sem í eftirlífinu virðist hætt að girnast hann kynferðislega og gerir nú mikið af því að skamma bróður sinn. Auðvitað lætur blóðþorstinn aftur á sér kræla og málin flækjast þegar sonur hans, sem hefur verið foreldralaus árum saman, mætir á svæðið og umturnar lífi hans.

Nýja þáttaröðin lofar góðu þó það séu ekki eins miklar andstæður í þessum tveimur lífum sem Dexter lifir, sem einnig vegar hættulega salt við fortíðina í Miami. Spennan er til staðar og eftir þrjá þætti er ljóst að hann mun lenda í miklu klandri áður en hann kveður skjáinn endanlega eftir þessa kærkomnu aukaseríu af frábærum spennuþáttum. Þáttum sem kenna temmilega heiðarlegri kvikmyndaáhugamanneskju í Vesturbæ að það er hreint ekkert svo erfitt að elska raðmorðingja.