Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Andersson biðst lausnar eftir sjö tíma í embætti

24.11.2021 - 17:44
epa09601055 Swedish Social Democratic Party leader and newly appointed Prime Minister Magdalena Andersson during a press conference after the budget vote in the Swedish parliament, Stockholm, 24 November 2021. The Swedish parliament has rejected Magdalena Andersson's budget and passed the right-wing?s opposition budget instead.  EPA-EFE/Pontus Lundahl/TT SWEDEN OUT
 Mynd: EPA
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar frá því í morgun, baðst lausnar síðdegis fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Það gerðist eftir að græningjar slitu stjórnarsamstarfinu í kjölfar þess að fjárlagafrumvarp næsta árs var fellt á þingi.

Andersson er fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra í Svíþjóð. Rúmar sjö klukkustundir liðu frá því að þingið samþykkti með naumindum að fela henni stjórn konungsríkisins þar til hún greindi frá afsögn sinni. Það sagðist hún hafa gert til að fylgja hefð; ef flokkur hætti stuðningi við stjórnina bæri henni að segja af sér og hún vildi ekki stýra stjórn sem hægt væri að efast um að væri lögmæt.

Veik ríkisstjórn þarf að stýra samkvæmt fjárlögum annarra

Tíðindin endurspegla þann óstöðugleika sem hefur einkennt sænsk stjórnmál síðustu árin og þurfa þau ekki með öllu að koma á óvart. Ríkisstjórnin stóð tæpt, og var Andersson aðeins einu atkvæði frá því að vera felld í kjörinu í morgun. 174 þingmenn af 349 greiddu atkvæði gegn henni.

Strax eftir forsætisráðherrakjörið í morgun var komið að því að greiða atkvæði um fjárlög.

Miðflokkurinn, sem studdi að Magdalena Andersson tæki við forsætisráðherraembættinu af Stefan Löfven, hafði hins vegar lýst því yfir að hann gæti ekki stutt fjárlagafrumvarp stjórnarinnar. Flokkurinn stóð við það og greiddi atkvæði með eigin fjárlagafrumvarpi.

Það varð til þess að borgaraflokkarnir, Moderaterna, Kristilegir demókratar og Svíþjóðardemókratar náðu sínu eigin frumvarpi í gegn. Samkvæmt sænskum lögum þarf fjárlagafrumvarp nefnilega ekki stuðning meirihluta þingsins. Séu nokkur frumvörp lögð fram, verður það sem fær flest atkvæði að lögum.

Í frumvarpi borgaralegu flokkanna, sem nú er orðið að lögum, er 20 milljörðum sænskra króna ráðstafað með öðrum hætti en ríkisstjórnin hafði lagt upp með.

Kosningaloforð jafnaðarmanna um innleiðingu sérstaks foreldrafrís eru felld út, skattar á eldsneyti lækkaðir, auknir fjármunir settir í landamæraeftirlit og löggæslu, laun lögregluþjóna hækkuð og skattar á eldri borgara lækkaðir.

Per Bolund, umhverfisráðherra og einn leiðtoga græningja, tilkynnti í kjölfarið að flokkurinn hefði slitið stjórnarsamstarfinu. Græningjar gætu ekki hugsað sér að starfa samkvæmt fjárlögum sem Svíþjóðardemókratarnir hefðu átt þátt í að semja. 

Enn líklegast að Andersson verði forsætisráðherra

Enn þykir þó líklegast að Andersson verði forsætisráðherra. Gæningjar hafa gefið út að þeir séu reiðubúnir að veita minnihlutastjórn jafnaðarmanna stuðning sinn, og sömu sögu er að segja af Miðflokknum.

Ekki liggur þó fyrir hvenær önnur atkvæðagreiðsla verður í þinginu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV