Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Spennudrifin tvífarasaga í örum takti

Mynd: Forlagið / Forlagið

Spennudrifin tvífarasaga í örum takti

23.11.2021 - 09:02

Höfundar

Þó ekki sé kafað á dýptina í nýjustu sögu Hildar Knútsdóttur, Myrkrinu milli stjarnanna, er hún hrollvekjandi og spennandi aflestrar, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Tvífaraminnið er gamalt stef úr þjóðsögum og náði nokkru flugi með rómantíkinni á nítjándu öld, Byron, E.T.A Hofmann og kannski síðast en ekki síst Skotarnir James Hogg og síðar Robert Louis Stevenson nýttu sér þetta í skáldskap sínum. Bók Hoggs, The Private Memoirs and Confessions of a Justified Sinner, sem kom út 1824, var að einhverju leyti fyrirmynd þess síðastnefnda að sögunni frægu um Jekyll og Hyde. Í þessu samhengi má líka nefna skosku skáldkonuna Emmu Tennant sem skrifaði feminíska nútímasögu upp bók Hoggs, skáldsöguna The Bad Sister, eða vondu systurina á áttunda áratug síðustu aldar. Strax við upphaf kvikmyndaaldar komu síðan bíómyndir með þetta söguefni.

Sögur og kvikmyndir um svefngengla eru líka þekktar og skarast viðfangsefnin í þeim oft við tvífarasögur, við vitum ekki alltaf hvort um tvífara eða svefngengil er að ræða. Þetta má til sanns vegar færa í nýjustu sögu Hildar Knútsdóttur, Myrkrið milli stjarnanna. Sögukonan, Iðunn, lýsir í fyrstu svefntruflunum sínum og svefngöngum en fljótlega vakna grunsemdir hennar um tvífara, án þess að það verði rakið frekar.

Tvíhyggjan um gott fólk og illt var tekin sumpart í sundur með þessum áðurnefndu sögum, sama persónan gat verið hvort tveggja eins og kemur skýrt fram í einni þeirra frægustu, The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde. Þetta er líka að mörgu leyti mjög tímabær spurning nú á dögum þegar samfélagsmiðlarnir afhjúpa sumt fólk með „vörtum og öllu“ eins og sagt er á ensku, um leið og annað fólk rembist eins og rjúpan við staurinn að birta ekki aðeins myndir af sér, heldur glæsta ímynd, sem stenst kannski ekki alltaf próf veruleikans, á þessum sömu samfélagsmiðlum. Þessi saga skoðar dálítið samskipti í samtímanum, barns við foreldra, milli systkina, vinkvenna, karla og kvenna. Höfundur kafar þó ekki djúpt í þessi mál, heldur nýtir sér nokkuð staðlaðar myndir af ýmsum fígúrum, prinsinum og perranum, slúðrandi samstarfskonu, kvenlækninn góða, föðurinn samskiptaskerta og móðurina sem aldrei hlustar á afkvæmið. Systratengslin eru drifkraftur söguþráðarins og sú spenna sem er á milli systranna er áhugaverð, en kannski hefði þurft að gefa henni meiri gaum. Hvað var það sem olli þessari togstreitu milli þeirra, það getur varla verið einungis aldursmunur og yfirgangur þeirrar eldri?

Sagan er stutt og mínimalísk, sögð í fyrstu persónu og sjónarhornið er alltaf hennar, hún segir einfaldlega frá öðrum karakterum og þeir eru túlkaðir út frá viðhorfum hennar. Þannig er mikið tempó í sögunni og hún er býsna spennandi aflestrar. Mínimalisminn kemur fram í stuttum málsgreinum og köflum, sumir eru jafnvel aðeins ein málsgrein og hraðinn næst með því að flestir kaflar enda á því að sögukonan sofnar og næsti byrjar á því að hún vaknar. Þetta lætur stuttaralega í eyrum, en málið er að lesandinn veit ekki gjörla, að minnsta kosti ekki framan af, hvað gerist þarna á milli, en hann, hún eða hán vita samt að það hefur eitthvað mikið gerst og það er spennuþátturinn í sögunni.

Eins og áður sagði túlkar söguröddin allt annað fólk í frásögninni og þau eru raunar fá sem koma vel út úr því; dómharka hennar er að einhverju leyti sjálfsvarnartæki, að öðru leyti einfaldlega töffaraskapur, en í gegnum skín eitthvert óöryggi, hún hefur verið að dandalast með giftum manni sem hún fyrirlítur og hann er ekki sá fyrsti. Einhvern veginn ræður hún heldur ekki við ofríki foreldranna, eða nennir ekki að breyta því sem steinrunnið er. Kannski braut systirin hana niður á sínum tíma og hún reynir að dylja þau sár með hörkunni. Oft er eitthvað mjúkt og viðkvæmt undir harðri skel.

Systirin eldri er látin þegar frásögnin hefst, en hún hefur greinilega verið erfið í umgengni ef marka má söguröddina og hún er samt greinilega mesti áhrifavaldurinn í lífi hennar, hún er í raun og veru skýringin á ástandi hennar og líðan, hún er einhvern veginn inni í henni en samt ekki, aðeins minning, en samt ágeng og það er það sem þessi saga er hugsanlega að lýsa, hvernig við getum búið við okkar nánustu innra með okkur, líka eftir að þau eru farin, og þegar illa fer, eru þau grundvöllurinn að ógæfunni, nú eða vonandi oftar, gæfunni.

Hér fer samt sem áður ekki fram neitt uppgjör við nútímafjölskylduna, til þess er sagan dregin of fáum dráttum. Aðalatriðið er, sýnist mér, að úr verði spennandi og nokkuð hrollvekjandi frásögn af því hvernig samsamaðar vitundir geta rekist á og valdið örlögum sem varða bæði líf og dauða, manna jafnt sem katta, og þótt ekki sé komin hér nein stórsaga upp á hundruð blaðsíðna þá er vel hægt að stytta sér stundir með snarpri og spennandi sögu um svefngengla og tvífara.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Vel smíðað en krefjandi meistarastykki

Bókmenntir

Úr takti við tímann

Bókmenntir

Ádeila á klisjur um ástina

Bókmenntir

Mörkin á mannlegu atferli