Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Slegin yfir dýraníði

23.11.2021 - 17:18
Dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun er slegin og segir það mikil vonbrigði að sjá hversu alvarlega er farið á svig við reglugerð um dýravelferð í heimildarmynd um blóðtöku fylfullra mera hér á landi. Málið sé í rannsókn og verði vísað til lögreglu ef svo beri undir.

Matvælastofnun hefur nú til rannsóknar myndband frá alþjóðlegum dýravernarsamtökum sem birt var á YouTube í gær. Þar má sjá slæman aðbúnað blóðtökumera og dýraníð. Fylfullar hryssur eru bundnar upp í illa byggðum básum þar sem blóð er tekið úr þeim og þær barðar með járnstöngum og spýtum þar til þær eru örvinglaðar af sársauka og þreytu eftir blóðtökuna. Þeir sem annast blóðtökuna berja merarnar jafnvel þegar þær eru hreyfingarlausar að blóðtöku lokinni þar sem þær hanga aðframkomnar í múl og reipum.

Hver og ein hryssa gefur 5 lítra af blóði einu sinni í viku í 10 vikur í röð að hausti. 

Blóðtakan er á ábyrgð líftæknifyrirtækisins Ísteka sem nýtir afurðina og dýralæknar á vegum þess sjá um framkvæmd blóðtökunnar. 

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka vildi ekki veita fréttastofu viðtal. Hann sagði í svari við tölvupósti fréttastofu að hingað til hefði fyrirtækið treyst á eftirlit dýralæknanna sem koma að blóðtökunni ásamt eftirliti sérstaks dýravelferðarfulltrúa sem starfi hjá Ísteka. Þegar fréttastofa óskaði eftir viðtali við dýravelferðarfulltrúann var þeirri beiðni einnig hafnað.

Blóðtaka úr íslenskum hryssum hefur farið mjög vaxandi hér á landi á síðustu árum. Nú eru 5383 hryssur nýttar í þessa starfsemi á 119 bæjum. Matvælastofnun heimsækir tæpan helming þeirra árlega. Ef alvarleg frávik koma í ljós er starfsemin tafarlaust stöðvuð. Alls hefur komið til stöðvunar á starfsemi á 5 stöðum frá árinu 2014.

Baldur Eiðsson, hrossaræktandi kemur fyrir í heimildarmyndinni. Þar sést hann reka myndatökulið í burtu og reyna að beina bifreið þeirra út af vegi með þeim afleiðingum að tökuliðið sér þann kost einan að hringja í lögregluna.

Baldur vildi ekki veita fréttastofu viðtal í dag en sagðist myndi senda frá sér yfirlýsingu síðar.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun segir að myndefnið hafi slegið sig illa. Starfsemin sé ekki leyfisskyld en henni hafi engu að síður verið sett skilyrði.

„Ísteka verður að uppfylla þessi skilyrði. Inni í því er mjög strangt innra eftirlit þeirra. Það að það séu samt sem áður að eiga sér stað alvarleg frávik frá því, það eru auðvitað mikil vonbrigði. Við förum á hvern stað sem heldur blóðtökuhryssur um það bil annað hvert ár. Við reynum náttúrulega að uppfylla rannsóknarskylduna og rannsaka vel og taka svo ákvörðun út frá því og ég er ekki tilbúin að kveða upp þann dóm núna.“