Músagangur hjá landsliðinu „Bara algjör viðbjóður“

Mynd með færslu
 Mynd: HSÍ - Facebook

Músagangur hjá landsliðinu „Bara algjör viðbjóður“

23.11.2021 - 09:17
Íslenska stúlknalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri stendur í stórræðum þessa dagana í Serbíu. Ekki aðeins leikur liðið þar um laust sæti í A-keppni EM 2023, heldur hefur íslenska liðið þurft að kljást við óþrifnað á hóteli sínu í Belgrad. Þar er nefnilega músagangur sem hefur eðlilega valdið miklum óþægindum.

Harpa Melsteð fyrrverandi landsliðskona Íslands á dóttur í U18 ára liðinu, Thelmu Melsteð Björgvinsdóttur. Harpa birti myndskeið á Twitter í gærkvöld sem hún hafði fengið sent frá Serbíu.

„Það er ekkert leyndarmál að það eru mýs hlaupandi hérna út um allt hótel. Það er ekkert bara á einu herbergi, heldur bara á öllu hótelinu. Þetta er auðvitað óboðlegt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U-18 ára landsliðs Íslands þegar RÚV sló á þráðinn til hans til Belgrad í Serbíu nú áðan.

Gestgjafinn, sem í þessu tilviki er handknattleikssamband Serbíu sér um að skaffa hótel fyrir gestaliðin. „Við erum auðvitað búin að kvarta og það er verið að vinna í málinu. En þetta er bara algjör viðbjóður,“ sagði Ágúst sem hefur þó marga fjöruna sopið í keppnisferðum erlendis í gegnum tíðina.

Framtíðarstjörnur Íslands

Spurður hvort músagangurinn hafi áhrif á undirbúning íslenska liðsins á mótinu segir Ágúst að það spili klárlega inn í. „Já, auðvitað gerir hann það. Sumir leikmenn eiga erfiðara með að hvílast með þessar mýs hlaupandi út um allt.“

Þrátt fyrir músaganginn vann íslenska liðið sterkan sigur á jafnöldrum sínum frá Slóveníu í gær, 24-21. „Ég var mjög ánægður með varnarleikinn okkar. Við vorum að spila 5-1 vörn sem stóð sig vel,“ sagði Ágúst meðal annars um leikinn. Ísland mætir Slóvakíu í dag og svo heimakonum í liði Serba á fimmtudag. „Þetta eru framtíðar leikmenn A-landsliðsins og flottur efniviður í þessu liði okkar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Ágúst Þór Jóhannsson þjálfar U18 ára landslið Íslands. Hann er reyndar líka aðstoðarþjálfari A-landsliðsins og þjálfar svo Valskonur sömuleiðis.

Tengdar fréttir

Handbolti

HSÍ kvartaði og stelpurnar losna af músahótelinu