Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krefja danska ríkið bóta fyrir félagslega tilraun

epa09034070 Denmark's Prime Minister Mette Frederiksen attends a press conference in the Prime Minister's Office in Copenhagen, Denmark, 24 February 2021.  EPA-EFE/Jens Dresling / POOL  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Politiken
Hópur Grænlendinga er tilbúinn að höfða mál á hendur danska ríkinu fyrir félagslega tilraun sem þeir voru látnir sæta árið 1951, greiði ríkið ekki bætur. Danska ríkið ákvað að tuttugu og tvö börn skyldu tekin frá fjölskyldum sínum í þeim tilgangi að skapa dönskumælandi yfirstétt Grænlendinga.

Börnin voru á aldrinum fjögurra til níu ára og voru send til Danmerkur til að læra dönsku. Þegar þau sneru aftur var þeim komið fyrir á barnaheimili í höfuðstaðnum Nuuk og bannað að tala móðurmál sitt. 

Af þessum 22 börnum lifa sex sem eru á aldrinum 75 til 78 ára og þau krefja öll danska ríkið um bætur. Mads Krøger Pramming, lögmaður fólksins segir þau hafa verið svipt fjölskyldulífi sínu, tungumálinu, menningu og réttinum til einkalífs.

Lögmaðurinn hefur sent forsætisráðuneytinu bréf þar sem þess er krafist að hverju og einu þeirra verði greiddar 250 þúsund danskar krónur sem jafngildir tæpum fimm milljónum íslenskra króna.

Ráðuneytið hefur 14 daga til að svar og verði ráðuneytið það ekki við kröfunni kveðst Pramming reiðubúinn að höfða mál á hendur danska ríkinu. 

Tilraunin hafði miklar afleiðingar fyrir börnin en um það bil helmingur þeirra varð fyrir misnotkun og glímdi við andleg veikindi. Mörg þeirra áttu stutta ævi og mikill minnihluti þeirra aflaði sér nokkurrar menntunar.

Fyrir um það bil ári bað Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur þau sem lifðu afsökunar á athæfinu, bæði skriflega og úr ræðustóli þjóðþingsins.

Sérfæðingar og grænlenskir stjórnmálamenn hafa síðan látið þá skoðun í ljósi að greiða beri fólkinu bætur. Astrid Krag félagsmálaráðherra hafnaði því í maí síðastliðnum og segir þungamiðju málsins liggja í að viðurkenna mistök fortíðarinnar. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV