Jasmine í lagi en Winter hafnað

23.11.2021 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Mannanafnanefd samþykkti í dag eiginnafnið Jasmine en hafnaði að sama skapi millinafninu Winter. Winter er ekki dregið af íslenskum orðstofnum og uppfyllir ekki skilyrði um millinöfn að mati nefndarinnar.

Í rökstuðningi mannanafnanefndar um Jasmine kemur fram að orðið taki ekki íslenskri beygingu í eignarfalli eftir stafanna hljóðan en ef það er hins vegar borið fram Jasmín, eins og algengast mun vera, þá tekur það íslenskri eignarfallsendingu en en telst þá ekki titað í samræmi við almennarritreglur íslensks máls. Því er einungis fallist á nafnið Jasmine ef það telst hafa unnið sér hefð. 

Samkvæmt Þjóðskrá bera 12 einstaklingar nafnið Jasmine, sá elsti er fæddur árið 1992. Til þess að nafn sé samþykkt vegna hefðar þarf það að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr);
  5. Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð nafns telst rofin ef það hefur ekki verið borið af Íslendingi undanfarin 70 ár.

Þar sem aðeins 12 bera nafnið uppfyllir það ekki þessar kröfur. En hins vegar segir í úrskurðinum:

„Í þessu máli munar svo litlu á því að nafnið uppfylli skilyrði 1. liðs vinnulagsreglnanna að mannanafnanefnd telur réttlætanlegt að líta svo á að nafnið hafi öðlast hefð á þeim grundvelli.“ segir í úrskurðinum. 

Millinöfn þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa áunnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.
  2. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.
  3. Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

„Millinafnið Winter er ekki dregið af íslenskum orðstofnum og uppfyllir þess vegna ekki ofangreind skilyrði um millinöfn. Beiðni um millinafnið Winter er hafnað.“ segir í úrskurðinum.