„Fullt af fólki að segja mér að halda kjafti“

Mynd: RÚV / RÚV

„Fullt af fólki að segja mér að halda kjafti“

23.11.2021 - 16:19

Höfundar

„Í hvert sinn sem einhver hallmælir mér þá pingar síminn: Eiríkur, það er einhver að segja að þú sért fífl á internetinu,“ segir Eiríkur Örn Norðdahl skáld. Styr stóð um hann eftir að hann sendi frá sér skáldsöguna Hans Blær fyrir þremur árum. Hann fjallar um þann tíma, umræðuhefðina í samfélaginu og fleira í nýrri skáldsögu sem nefnist Einlægur Önd.

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur sendi nýverið frá sér bók sína Einlægur Önd. Í henni leikur höfundur sér á mörkum skáldskapar og veruleika í umfjöllun um útskúfun, refsingu og fyrirgefningu. Guðni Tómasson hitti höfundinn við Hlöllabáta á Ingólfstorgi, en sá veitingastaður kemur einmitt fyrir í bókinni. Þá situr þar sögupersónan, Eiríkur Örn, með hálfan bát þegar hann verður var við múrstein fyrir framan sig á borðinu.

„Hvað í ósköpunum ertu að gera?“

Eiríkur Örn í bókinni er að sögn höfundar ritlistarkennari í Reykjavík sem missti æruna nokkrum árum fyrr eða þegar hann sendi frá sér bók sem var illa tekið. „Svo fær hann verkefnið að kenna ritlist fyrir norskt stórfyrirtæki sem hefur ekki hugmynd um að hann er ærulaus,“ segir Eiríkur um efni sögunnar. Sendingunni má lýsa sem nokkurs konar hótun til ritlistarkennarans sem minnir hann á að haga sér og halda sig á mottunni. „Þetta er annar múrsteinninn sem honum berst, sá fyrr kemur inn um stofugluggann hans,“ segir Eiríkur.

Múrsteininum fylgir lengra bréf þar sem honum er ráðlagt að segja upp vinnunni enda sé honum ekki treystandi til að vera í ábyrgðarstöðu, þar sem hann fer með mannaforráð. „Hann hlýðir ekki heldur hittir nemendur í eigin persónu sem hann á að vera að kenna netleiðis,“ segir Eiríkur. „Á meðan hann er að borða Hlöllabátinn rekur hann augun í að það er múrsteinn á borðinu og við hann eru önnur skilaboð: Hvað í ósköpunum heldurðu að þú sért að gera gæskurinn?“

Eins og að lesa gamlar dagbækur

Aðalpersóna sögunnar á augljóslega margt sameiginlegt með höfundinum, fleira en bara nafnið. Í bókinni eru vísanir í fyrri bækur höfundar, hvernig þeim hefur verið tekið og hvaða viðbrögð þær hafi fengið. Þá nefnir hann að Illska hafi fengið íslensku bókmenntaverðlaunin en Hans Blær vakið upp deilur.

Aðspurður hvort bókin Einlægur Önd sé ein sú sjálfhverfasta sem lengi hefur komið út hlær höfundur. „Jú kannski en samt einhvern veginn ekki,“ segir Eiríkur. Það sé sennilegt þegar litið er yfir farinn veg að það hafi alltaf verið mikið af honum sjálfum í sögupersónum hans. „Ég hef verið að lesa gamlar bækur eftir sjálfan mig og það er stundum eins og að lesa gamla dagbók. Bæði viðburðir sem ég hef lent í sem þá koma fyrir einhverjar sögupersónur og svo náttúrulega hugsanir sem ég hef.“

„Þá fer ég að taka því persónulega“

Gagnrýnendur hafa stigið fram í gegnum tíðina og gefið í skyn að það sé ógerningur að hafa samúð með drullusokknum sem aðalsögupersónan sé. „Þá fer ég að taka því persónulega, ekki sem höfundur heldur sem sögupersóna raunverulega,“ segir Eiríkur. „Þegar ég áttaði mig á þessu fór mér að finnast svo fasínerandi: get ég yfir höfuð skrifað sögupersónu sem er bara ég?“

Minna nágrannana á að æra þeirra sé löskuð

Ritlistarkennarinn Eiríkur Örn í bókinni flýr inn í sinn eigin skáldskap eins og höfundurinn Eiríkur Örn og fer að spegla sjálfan sig, eins og höfundur speglar sig í söguperónunni, í sinni sögupersónu sem nefnist Felix Ibaka og er frá tilbúna landinu Arbítreu þar sem múrsteinar fljúga þegar almenningur er ósáttur. „Þar er létt á réttarkerfinu með viðbrögðum almennings og ef þér finnst einhver vera drullusokkur eða glæpamaður eða að öðru leyti ærulaus þá er þér uppálagt að smána viðkomandi. Vegna þess að það hefur þurft ramma utan um það þá er algengasta og samþykktasta formið af þessari smánun að taka múrstein, það eru bretti af múrsteinum um allt í Arbítreru, og leggja einn við hús eða vinnustað viðkomandi.“

Þannig senda borgarar hverjum öðrum skilaboð, með því að safna þessum múrsteinum. Því fleiri sem staflað er því sekari ertu en svo fækkar þeim þegar líður á verknaðinn. „Þú þarft alltaf að týna þá í burtu sjálfur, skila þeim út í horn og á morgnanna kippir fólk með sér einum til að henda hjá nágrannanum bara til þess að minna á að mér finnst þetta enn ekki allt í lagi.“

Felix Ibaka í sögunni er settur út af sakramentinu fyrir að segja sannleikann samkvæmt Eiríki. „Það er að mörgu leyti illa séð í Arbítreru og þá erum við ekki að tala um að hann sé með skoðanir og hugmyndir heldur segir hann sögu eiginkonu sinnar eða sögu sína og hennar, og það er sannleikur sem hann á ekki. En hann varpar honum fram og það er álitinn ljótur glæpur.“

Umræðan enn sami helvítis sandkassinn

Eiríkur hefur farið mikinn á internetinu að undanförnu og tjáð sig um erfið og eldfim þjóðfélagsmál. Aðspurður hvort eitthvað bendi til þess að umræðan sé að þroskast og þróast segir Eiríkur að hann upplifi hana enn sem sama gamla sandkassaslaginn. „Ég held að því miður sé þetta alltaf sami helvítis sandkassinn,“ segir hann.

Fólk að senda skilaboð að segja honum að halda kjafti

Sjónvarpsáhorfendur sáu nýverið viðtal við Eirík Örn í Kveik á RÚV þar sem hann segir meðal annars að ljóst sé að við sem samfélag séum að reyna að eiga í samtali sem við séum ófær um að eiga í að óbreyttu. Það sé eins og okkur sé ekki boðin önnur afstaða en miskunnarleysi eða meðvirkni. Hann segir að umræðan í kjölfarið bendi til þess að Íslendingar hafi verið að horfa á sitthvorn þáttinn.

„Annar helmingur vill meina að þetta hafi ekki verið neitt nema góða fólkið að troða að sínum fordómafullu fordæmingum og hinn helmingurinn vill meina að þetta hafi verið gróf árás á þolendur og allt sem er gott og fallegt í heiminum,“ segir Eiríkur. „Inboxið mitt er fullt af fólki að segja mér að halda kjafti og ég reikna með því að það sé svipað um aðra sem voru í þessum þætti.“

Margir eru sárir eða reiðir

Hann segir að það bendi til árátturöskunar að henda sér í þessa umræðu, „sérstaklega ef maður er ekki tilbúinn að fara inn á með logandi sverð. Og jafnvel þó maður geri það,“ segir hann. „Það eru margir sem vilja frið til að ræða þetta en líka mjög margir sem eru sárir og reiðir og það er ekkert æðislega góður staður til að eiga í samræðum.“

„Í hvert sinn sem einhver hallmælir mér pingar síminn“

Hann segir að það sé afleiðing af nútímanum að fólk sem notar samfélagsmiðla fái kaffistofuhjalið alltaf beint til sín. „Í hvert sinn sem einhver hallmælir mér þá pingar síminn: Eiríkur, það er einhver að segja að þú sért fífl á internetinu,“ segir hann glettinn. En þessi umræðuhefð hafi fælingarmátt. „Fólk verður mjög þreytt og vill ekki vera með. Enn fleiri tala aldrei upphátt því það er svo óþægilegt og það hefur ekkert endilega með það að gera að skoðanir þeirra séu á einn veginn eða hinn eða þannig, það er bara óþægilegt að vera inni í samræðunni.“

Að skammast sín en vera ekki viss um að maður eigi að gera það

Bókin tali inn í þetta ástand en fjallar að sögn höfundar um paranojuna sem fylgi því að líða eins og maður eigi að skammast sín en vera ekki viss hvort maður sé sammála því. Vera ekki „viss um að maður skammist sín, viss um að allir hati mann eða öllum sé kannski bara skítsama. Það er svo skrýtið ástand þegar fólk upplifir sig ærulaust og nú hef ég ekki gert það, þrátt fyrir stormana í kringum Hans Blæ sem voru æðislega stórir, hef ég ekki upplifað mig á þeim stað. En ég þekki fólk sem hefur gert það,“ segir hann.

„Hvenær ertu að reyna að takast á við sjálfan þig og hvenær ertu sjálfhverfur?“

Eiríkur segir að það ekki tekið út með sældinni að lenda í slíkri paranoju. „Það fólk, það sem það gerir er að það upplifir stanslaust að þeir sem þau mæti horfi á þau hornauga. Og ef einhver brosir sé allt eins líklegt að brosið sé skítaglott og þegar þau snúa sér við séu þau bara: Djöfulsins viðbjóður,“ útskýrir Eiríkur.

Þá segir hann að þarna skipti stærð glæpsins ekki máli né heldur sekt eða sakleysi. „Ef þú lendir á þeim stað andlega sjálfur þá ertu fokkt í svolítið langan tíma,“ segir hann að lokum. „Það er mikil vinna að komast út úr því og þú veist aldrei hvenær þú ert að horfast í augu við sjálfan þig og hvenær þú ert að stara í hyldýpið í naflanum á þér. Hvenær ertu að reyna að takast á við sjálfan þig og hvenær ertu bara sjálfhverfur?“

Guðni Tómasson ræddi við Eirík Örn Norðdahl í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Óþægilegt að sanna að ég sé góð mannvera

Bókmenntir

Tekist á við tabúin og rótað í forminu

Leiklist

Hlægileg líkamning illsku og oflætis