Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Forseti setti þing og hvatti til stjórnarskrárbreytinga

Mynd: RUV / RUV
Alþingi var sett í dag, en vegna kórónuveirufaraldursins var aðeins örfáum boðið til þingsetningarinnar. Að vanda setti forseti Íslands Alþingi og um leið hvatti hann þingheim til að ráðast í umbætur á stjórnarskránni.

„Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið yfir lýsi ég því yfir að Alþingi Íslendinga er sett.“ Þetta sagði Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands og bauð þingmenn velkomna til þings. Hann ræddi eftirmála kosninganna í Norðvesturkjördæmi, kórónuveirufaraldurinn og viðhorf fólks til sóttvarna.

„Vissulega hefur hin eina rétta leið ekki alltaf verið valin, skárra væri það nú  - það er auðvelt að vera vitur eftir á. Öfgar og ýkjur geta fylgt frjálsum skoðanaskiptum en við höfum boðið gæfu til þess að standa að mestu saman gagnvart sameiginlegri vá.“

Forseti hvatti til þess að tillögur að stjórnarskrárbreytingum yrðu teknar til efnislegrar afgreiðslu, en hann gerði það einnig við síðustu þingsetningu.

„Svo fór ekki heldur, þess í stað réðust örlög stjórnarskrárfrumvarps í einhverju nefndarherbergi hér handan Austurvallar. Vonandi gengur betur á þessu kjörtímabili að ræða og ráðast í skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands, rétt eins og henni hefur áður verið breytt í tímans straumi. Má þá sem fyrr horfa til ákvæða um umhverfi, auðlindir og íslenska tungu auk þjóðhöfðingjakafla stjórnarskrárinnar. Verkefni hér næstu daga benda líka til þess að fleira megi rýna í þessum efnum,“ sagði forseti Íslands.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir