Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Blóðtaka úr merum hefur verið stöðvuð á fimm stöðum

23.11.2021 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Starfsemi fimm hrossabænda sem stunduðu blóðtöku úr merum hefur á undanförnum árum verið stöðvuð og hafa þeir ekki fengið leyfi til að hefja starfsemi að nýju. Þetta segir dýralæknir hjá Matvælastofnun sem jafnframt bendir á að starfsemin sé ekki leyfisskyld samkvæmt lögum. 

Svissnesk dýraverndarsamtök frumsýndu í gær myndband á Youtube sem sýnir verklag við blóðtöku úr fylfullum hryssum. Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun segir á hendi stofnunarinnar að hafa ytra eftirlit með starfsemi þar sem blóðtaka fer fram og að Matvælastofnun rannsaki nú myndefni frá dýraverndarsamtökunum.

„Síðan hefur komið fram í umræðunni að Matvælastofnun veiti leyfi fyrir þessu, það er ekki rétt þetta er ekki leyfisskyld starfsemi samkvæmt íslenskum lögum. Við höfum sett þessari starfsemi mjög ströng starfsskilyrði sem við förum fram á að sé fylgt og förum fram á að fyrirtækið sinni með sínu innra eftirliti,“ segir Sigríður Björnsdóttir.

Sigríður ítrekar að ábyrgðin sé þeirra sem halda dýrin og Ísteka sem kaupi blóðið. Eitt af skilyrðunum sem Matvælastofnun fer fram á er að Ísteka hafi ekki viðskipti við starfsstöðvar þar sem upp hafa komið alvarlegir brestir og því hafi fyrirtækið fylgt eftir. Fimm sinnum hafi komið upp slík frávik við eftirlit. „Annað hvort breytist meðferð dýranna þegar eftirlitsmaður er kominn á staðinn eða þetta er mjög fátítt,“ segir Sigríður.