Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ólíkar leiðir seðlabanka

President of European Central Bank Christine Lagarde gestures during a press conference after a meeting of the governing council in Frankfurt, Germany, Thursday, Dec. 12, 2019. (AP Photo/Michael Probst)
 Mynd: AP
Evrópski seðlabankinn hyggst ekki bregðast við verðbólguskoti í álfunni með því að hækka stýrivexti. Það er öfugt við nálgun Seðlabanka Íslands.

0,5 prósentustiga vaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku hefur sætt gagnrýni víða þótt hún hafi verið viðbúin. Verkalýðshreyfingin hefur farið fremst í flokki og í Silfrinu í gær sagði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar að ef Seðlabanki þyrfti að ráðast í hraðar hækkanir væri misbrestur í kerfinu. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri í Seðlabankanum, sagði í sama þætti að það væri óskynsamlegt að fara bratt í vaxtahækkanir ef útlit væri fyrir að verðbólguskot yrði skammvinnt.

Þar endurómar Lilja orð Christine Lagarde, forseta Evrópska seðlabankans í ræðu sem hún flutti á föstudag. Í ræðunni galt Lagarde varhug við að herða peningastefnuna á sama tíma og þrengdi að ráðstöfunartekjum almennings vegna hækkandi verðbólgu. Líkur væru á að verðbólguskotið í Evrópu, sem einkum stafar af hækkandi orku- og eldsneytisverði, yrði tímabundið. Seðlabankar ættu að horfa til meðallangs tíma og hert peningastefna við ríkjandi aðstæður gæti beinlínis verið skaðleg.

Þess ber að geta að hvatarnir á bakvið þráláta verðbólgu hérlendis liggja í hækkun húsnæðisverðs en Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði í viðtali við RÚV í síðustu viku að hann teldi tíma hækkana, bæði á húsnæði og hrávöru, á enda. 

Bankarnir hafa enn ekki uppfært vaxtatöflur sínar frá síðustu stýrivaxtaákvörðun en þess má vænta að það verði gert á næstu dögum. Þeir sem vilja nota tækifærið og festa vexti áður en hækkanir taka gildi ættu að hafa hraðar hendur, enda miðast vaxtastig nýrra lána við þann dag sem sótt er um.