Lengsta bið eftir þingsetningu síðan 1987

22.11.2021 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Síðast þegar leið jafn langur tími og nú milli kosninga og þingsetningar var Vigdís Finnbogadóttir forseti, Davíð Oddsson borgarstjóri og Þorsteinn Pálsson tók við taumunum í forsætisráðuneytinu af Steingrími Hermannssyni.

Alþingi kemur saman á morgun í fyrsta skipti frá 6. júlí. Þá verður liðinn lengsti tími í yfir 30 ár milli alþingiskosninga og þingsetningar, og með lengri tímum í lýðveldissögunni frá því þingi var slitið fyrir kosningar þar til það kom fyrst saman að þeim loknum.

Á morgun hafa liðið 58 dagar frá kjördegi að þingsetningardegi, ef við sleppum því að telja þá báða með. Það er tólf dögum lengra en fyrir fjórum árum og 21 degi lengra en 2016 þegar þing kom saman eftir fimmtu lengstu stjórnarkreppu lýðveldissögunnar.

Þessi langa bið er þó tiltölulega stutt miðað við það sem gerðist á níunda áratug síðustu aldar. Eftir kosningar 1987 liðu 167 dagar milli kosninga og þingsetningar og fjórum árum áður var biðin tveimur dögum lengri, 169 dagar. Það er lengsti tími sem liðið hefur frá kosningum til þingsetningar á lýðveldistímanum. Á morgun verða liðnir 140 dagar frá síðasta þingfundi í júlí. Fara þarf allt aftur til ársins 1987 til að finna lengri tíma þar sem þingið var ekki að störfum, 203 og 208 1983. Mest liðu 235 dagar frá þingslitum til þingsetningar, það var árið 1953 frá 6. febrúar til 1. október.Þá voru liðnir rúmir þrír mánuðir frá kosningum og tæpir átta mánuðir frá síðasta þingfundi.

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Ríkisstjórnin sem tók við völdum 1987.

Langa bið milli þingslita, kosninga og þingsetningar mátti á fyrri áratugum oft skýra með vandræðum við stjórnarmyndun. Þannig var ríkisstjórnin sem tók við völdum 1987 mynduð eftir næst lengstu stjórnarkreppu lýðveldistímans. Á upphafsárum lýðveldistímabilsins gat líka liðið mun lengri tími frá því að þingi var slitið fram að kjördegi en tíðkast hefur í seinni tíð. Þannig var ekkert þing starfandi í nærri fimm mánuði fram að kosningum 1949 og 1953. Fyrra árið liðu bara þrjár vikur frá kjördegi fram að þingsetningu en þrír mánuðir í seinna skiptið.

Á vef Alþingis má finna yfirlit yfir síðustu þingfundadaga fyrir kosningar, kjördaga og þingsetningardaga eftir kosningar auk tímans sem leið þar á milli.

Fréttin hefur verið leiðrétt: 140 dagar líða milli þingfunda en ekki 218, eins og upphaflega sagði.