„Grunnforsenda ef við ætlum að dreifa ferðamönnum”

Mynd með færslu
 Mynd: Markaðsstofa Norðurlands - RÚV
Markaðsstofa Norðurlands telur óásættanlegt að vetrarþjónustu á vegum á ferðamannastöðum á Norðurlandi sé eins ábótavant og raun beri vitni. Framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar segir að lokanir hafi mikil áhrif á markaðsstarf.

Skora á ríkisvaldið að bæta til muna vetrarþjónustu

Stjórn Markaðsstofu Norðurlands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kvartað er undan vetrarþjónustu á vegum á ferðamannastöðum á Norðurlandi. Sérstaklega er bent á vetrarþjónustu á Vatnsnesvegi að Hvítserk og á Demantshringnum, sem var formlega opnaður á síðasta ári. „Ástandið er í hróplegu ósamræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um jafna árstíðasveiflu í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur upplifað mikil áföll undanfarin misseri og ríður á að ryðja úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir viðspyrnu í greininni, enda eykur góð vetrarþjónusta líkurnar á verðmætasköpun í ferðaþjónustu. Skortur á vetrarþjónustu stofnar öryggi vegfarenda í óþarfa hættu og ætti að vera forgangsmál að bæta þar úr til að tryggja öryggi og upplifun gesta og íbúa. Stjórn Markaðsstofu Norðurlands skorar á ríkisvaldið að bæta til muna vetrarþjónustu á vinsælum ferðamannastöðum á svæðinu og horfa þar sérstaklega til nýopnaðs Demantshrings og Vatnsnesvegar að Hvítserk,” segir í ályktuninni.

Sjá einnig: Demantshringurinn formlega opnaður

„Við vitum í rauninni ekkert hvað við erum að selja”

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir að lokanir hafi mjög mikil áhrif. „Þetta auðvitað þýðir stórtap fyrir þessa aðila sem eru að selja ferðir á þessi svæði. Þetta gerir það auðvitað líka að verkum að við getum ekki markaðssett Demantshringinn opinn. Við vitum í rauninni ekkert hvað við erum að selja.”

Var það ekki hugmyndin með honum að geta selt hann árið um kring?

„Jú það er nefnilega hugmyndin og þetta eru auðvitað gríðarleg verðmæti sem liggja þarna ósnert ef við getum ekki selt Demantshringinn. Það er algjör grunnforsenda ef við ætlum að dreifa ferðamönnum um landið að þeir komist þangað sem þeir ætla að fara.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Demantshringinn