Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

COVID-andlát yfir þúsund í Noregi

22.11.2021 - 17:21
epa09591557 Florence, a nurse tends to a patient with the COVID-19 disease in the intensive care unit at the Etterbeek-Ixelles site of the Iris Sud Hospitals in Brussels, Belgium, 19 November 2021. Nearly 580 patients are currently in intensive care. Between 09 and 15 November a total of 11254 new COVID-19 contaminations were detected on average per day, up 14 percent from the previous week.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE
Dauðsföll af völdum COVID-19 í Noregi eru komin yfir eitt þúsund. Fjórða bylgja veirufaraldursins er í fullum gangi þar í landi. Hátt í fimmtán hundruð smit voru greind þar í gær.

Þetta kom fram þegar Lýðheilsustofnunin greindi frá fjölda smita og andláta um helgina. Samkvæmt upplýsingum hennar eru andlátin orðin 1.002. Ör fjölgun smita veldur vandkvæðum, til dæmis í Björgvin. Þar smituðust yfir eitt þúsund manns síðustu sjö daga, - tvöfalt fleiri en í vikunni þar á undan. Síðastliðinn sólarhring voru smitin 153. Hátt í níu hundruð mættu í sýnatöku. Frá og með deginum í dag hefur öllum borgarbúum verið skipað að vera með hlífðargrímur innan dyra ef ekki er unnt að virða eins metra fjarlægðartakmarkanir.

Síðustu sjö daga hafa að jafnaði greinst 2.055 veirusmit á sólarhring í Noregi. Þau voru 1.470 í gær. Álag á sjúkrahús landsins er mikið. Á háskólasjúkrahúsinu í Ósló, stærsta sjúkrahúsi landsins, hefur fyrirhuguðum aðgerðum verið frestað að undanförnu og það ástand varir enn um sinn, að því er fréttastofa norska ríkisútvarpsins hafði eftir blaðafulltrúa sjúkrahússins í dag.

Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra Noregs, vottaði öllum samúð í dag sem höfðu misst ættingja eða vini í farsóttinni. Hún minnti á að ástandið væri ekkert að skána. Ráðherrann bað fólk fyrir helgi að fara að öllu með gát, til dæmis að heilsat ekki með handabandi til að koma í veg fyrir smit.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV