Bjó til tölvukerfi til að geta skráð rástíma að vild

22.11.2021 - 10:34
Golfklúbbur Reykjavíkur
 Mynd: grgolf.is - Ljósmynd
Hópur félaga í Golfklúbbi Reykjavíkur fékk áminningu og einn fór í skráningarbann á völlum félagsins eftir að hann varð uppvís að því að tengja forrit við tölvukerfið Golfbox og þannig gat hann skráð rástíma að vild. Formaður klúbbsins segir málið alvarlegt og að það sé engan veginn í samræmi við gildi klúbbsins og íþróttarinnar.

Upp komst um málið í sumar, en samkvæmt heimildum fréttastofu veittu félagar í klúbbnum því athygli að sami hópurinn gat að öllu jöfnu bókað nokkur holl í röð, en þar sem mikil aðsókn er að völlum félagsins komast jafnan færri að en vilja.

Allir golfklúbbar á landinu nota Golfbox til að halda utan um og skrá rástíma og opnað er fyrir skráningu klukkan 22 að kvöldi fjórum dögum fyrir fyrirhugaðan leiktíma. Það vakti athygli félagsmanna, samkvæmt heimildum fréttastofu, að þessi tiltekni hópur var yfirleitt búinn að skrá sig nokkrum sekúndum eftir klukkan 22, en lengri tíma hefði átt að taka að skrá svo marga til leiks. Þá mun skráning hópsins í einhverjum tilvikum hafa verið komin í gegn fyrir klukkan 22, þrátt fyrir að kerfið bjóði ekki upp á það.

Bjó til forskot umfram aðra

„Það varð einn félagi uppvís að notkun á kerfinu sem var óeðlileg,“ segir Björn Víglundsson, formaður Golfklúbbs Reykjavíkur, í samtali við fréttastofu. „Það var vegna hagnýtingar á tölvutækninni sem gerði það að verkum að hann hafði forskot umfram aðra sem eru að skrá sig.“

Björn segir að svokölluð skrifta hafi verið notuð í þessum tilgangi, en með því hafi forrit sem innihélt allar upplýsingar um leikmennina verið tengt við Golfbox. Ekki hafi þurft annað en að ræsa það til að skrá þá alla á örskammri stundu.

Hann segir með þessu athæfi hafi viðkomandi félagi brotið notkunarreglur kerfisins, en það er í umsjá Golfsambands Íslands.  Málið var sent áfram til aganefndar golfklúbbsins sem komst að þeirri niðurstöðu að sá sem varð uppvís að þessu var settur í skráningarbann og þeir sem hann skráði fengu áminningu, en ekki þótti sannað að þeir hefðu haft vitneskju um athæfið.

Ekki í samræmi við gildi íþróttarinnar

Björn segir að þetta hafi valdið verulegum vonbrigðum. „Þetta er sannarlega ekki í samræmi við gildi Golfklúbbs Reykjavíkur og golfíþróttarinnar. Traust og heiðarleiki er eitt af grundvallaratriðum íþróttarinnar.“

Hann segist hafa fengið ávæning af því að þetta væri ekki eina málið sinnar tegundar sem upp hefði komið innan Golfsambandsins. „Það er verið að skoða hvernig hægt sé að bregðast við þessu - það er alveg klárt að eftirlitið þarf að vera til staðar.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir