Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Að minnsta kosti fimm látnir eftir árás í Wisconsin

22.11.2021 - 05:40
epa09597017 A man ducks under police tape as he walks past debris left from crowds attending a Christmas parade scattered along the route after a SUV reportedly broke through a barricade and drove into people including children leaving several people dead and many more injured in Waukesha, Wisconsin, USA, 21 November 2021. The vehicle was recovered by police and a person of interest is in custody.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Að minnsta kosti fimm eru látnir og 40 slasaðir eftir að jeppa var ekið á miklum hraða gegnum jólaskrúðgöngu í miðborg Waukesha í Wisconsinríki í Bandaríkjunum. Óttast er að tölurnar eigi eftir að hækka eftir því sem rannsókn miðar áfram.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgaryfirvöldum. Fjöldi barna er meðal þeirra sem slösuðust í ódæðinu, mörg illa samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsum í borginni. 

Meðal hinna slösuðu er kaþólskur prestur og börn úr sunnudagaskóla hans. Fljótlega var sett upp hjálparmiðstöð í borginni þangað sem fólk gat leitað saknaði það ástvina sinna.  

Lögreglumaður skaut í átt að bílnum meðan honum var ekið gegnum mannfjöldann án þess að hæfa ökumanninn, né nokkurn annan. Lögreglan hafði fljótlega upp á bílnum og hefur nú mann í haldi grunaðan um verknaðinn.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur verið upplýstur um stöðu mála í Wisconsin. Vegir eru víða lokaðir og allt skólahald verður fellt niður í borginni á morgun. Í tilkynningu skólayfirvalda segir að allir sem þurfi á stuðningi að halda séu velkomnir.  

Fréttin var uppfærð með upplýsingum um fjölda látinna klukkan 6:20.
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV