Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vilja létta álagi af heimilum fólks með heilabilun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýju þróunarverkefni Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar er ætlað að létta álagi af heimilum fólks með heilabilun og bæta lífsgæði þess og aðstandenda sömuleiðis. Vonir standa til að fljótlega verði hægt að fjölga þeim sem njóta þjónustunnar. Tilgangurinn er að fólk geti búið á heimilum sínum sem lengst.

Verkefnið felst í félagslegum stuðningi sem veittur verður á kvöldin, um helgar eða þegar fólk kýs að njóta hans, að sögn Berglindar  Guðmundsdóttur skrifstofustjóra öldrunarmála á velferðarsviði Reykjavíkurborgar 

„Stuðningurinn mun auðvitað líka nýtast aðstandendum þeirra sem eru oft í mikilli þörf fyrir að það sé aukinn stuðningur inni á heimilinu,“ segir Berglind.

Verkefnið hefst um áramót, það er til tveggja ára og er í samstarfi við Alzheimersamtökin. Til að byrja með verður 30 borgarbúum með heilabilun boðin þjónustan í 2-3 tíma tvisvar í viku.

„Við sjáum þetta eingöngu sem fyrsta skref , það var samþykkt fjármagn í þetta fyrir þennan tíma. Við stefnum að því að  verkefnið stækki svo ár frá ári,“ segir Berglind.

Hún segir að aðstandendur fólks með heilabilun séu oft undir miklu álagi. „Þeir eru oft hræddir um ástvin sinn. Þeir veigra sér við að fara frá viðkomandi út af heimilinu. Þessi aukni stuðningur er því mjög mikilvægur.“

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir