Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umferðaröryggi aukist, en maðurinn aðal áhrifavaldurinn

21.11.2021 - 19:51
Mynd: Haukur Holm / RÚV
Betri vegir og betri bílar hafa aukið umferðaröryggi, en maðurinn er samt alltaf aðal áhrifavaldurinn, segir samgönguráðherra. Fórnarlamba umferðarslysa var minnst í dag.

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa er í dag. Þess var minnst víða um land og í Reykjavík tóku forseti Íslands og samgönguráðherra þátt í táknrænni athöfn þar sem kveikt var á sjö kertum, en það er fjöldi þeirra sem látist hafa í umferðarslysum á árinu, og höfð einnar mínútu þögn. Forsetinn segir mikilvægt að minna á þetta því margir á vegum úti séu ekki með hugann við aksturinn.

„Mér finnst alveg magnað, til dæmis, þegar ég ek Álftanesveginn að til er fólk sem sér hjá sér þörf að taka fram úr á einhverjum smá kafla sem veldur því að fólk er kannski hálfri mínútu eða innan við það skemur að umferðarljósunum þar sem þarf alltaf að bíða hvort eð er.“

Og samgönguráðherra tekur undir mikilvægi áminningarinnar.

„Vissulega verða vegirnir betri og bílarnir betri og sitthvað fleira, en það verður aldrei frá okkur tekið að stærsti áhrifavaldurinn er maðurinn sjálfur og ef við erum ekki meðvituð um að við berum mestu ábyrgð á umferðarmenningunni þá getum við heldur ekki komi í veg fyrir flest slys. Þannig að svona dagur er mikilvægur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Samgönguráðherra talar þar af reynslu því sjálfur missti hann foreldra sína í umferðarslysi.

„Já, ég geri það og einmitt það að rifja það upp, þetta var á svipuðum tíma þótt það séu orðin ansi mörg ár síðan, þá rífur þetta svolítið upp í sálinni.“

Óli H. Þórðarson sem áratugum saman barðist fyrir bættu öryggi í umferðinni segir margt hafa breyst til batnaðar og það megi þakka betri fræðslu, betri vegum og fleiru.

„Ennþá er ég nú með þá tilfinningu þegar ég heyri af alvarlegu slysi þá fer það alveg í gegnum merg og bein.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV