Stefnir í að 5.000 börn fæðist í ár

21.11.2021 - 20:07
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Það stefnir í að um fimm þúsund börn fæðist hérlendis á þessu ári. Það væri langmesti fjöldi fæðinga á einu ári frá upphafi. Aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands segir að þetta tengist líklega beinlínis kórónuveirufaraldrinum.

Covid-börnin

Miðað við tölur frá fyrstu þremur ársfjórðungum hafa ekki fæðst fleiri börn á einu ári frá því árið 2010, en sá árgangur var óvenju fjölmennur. Þá var stundum talað um hrun-börnin, en barneignum fjölgaði mjög fyrst eftir hrun. Nú stefnir í að metið frá 2010 verði loksins slegið, og spurning hvort þá megi tala um covid-börnin, eða samkomubannsbörnin. 

„Á Íslandi og sumum öðrum Norðurlöndum og öðrum löndum í kringum okkur þá erum við að sjá það sem hefur verið kallað baby-boom, þar sem að fólk er að velja að eignast börn akkúrat núna og það liggur beinast við að tengja þetta við covid-faraldurinn en svo eru aðrir þættir sem gætu líka haft áhrif, við sáum til dæmis nýja fæðingarorlofslöggjöf, þar sem fæðingarorlof fer frá því að vera níu mánuðir upp í tólf,“ segir Sunna Kristín Símonardóttir, aðjúnkt.

Lilja Sóley Hauksdóttir, nýorðin móðir, segir að faraldurinn hafi sannarlega haft áhrif á barneignirnar. „Planið var upphaflega að kaupa hús, gifta sig og fara svo í barneignir, en út af covid þá var ekkert brúðkaup í ár eða í fyrra þannig að við ákváðum að láta bara vaða þá í staðinn, og eignast þetta litla kríli,“ segir hún. „Svo kannski líka spilaði inn í að manni kannski leiddist pínu, ég var alltaf bara heima ein og vantaði smá félagsskap.“

„Í þessu covid-ástandi þá erum við að horfa svolítið inn á við, ekki satt? Við erum inni á heimilunum. Ég meina hundar eru uppseldir á Íslandi ekki satt? Þannig að við erum að hugsa svona, hvað gerum við heima við til að bæta líf okkar og kannski eru barneignir hluti af því,“ segir Sunna Kristín.

Þarf að fjölga ljósmæðrum og leiksskólaplássum

Það sem af er ári hafa um það bil þrjú hundruð fleiri börn fæðst en á sama tíma í fyrra, eða næstum eitt barn til viðbótar á dag.

„Fyrst þurfum við að hugsa um að við séum með nóg af ljósmæðrum og læknum til að taka á móti þessum börnum,“ segir Sunna Kristín. 

En hvað þýðir það þegar það fæðast svona mörg börn á einu ári? Eftir um það bil eitt ár þarf til dæmis mun fleiri pláss hjá dagmæðrum. Hver dagmóðir getur haft um fimm börn í vist, þannig að þrjú hundruð auka börn kalla á allt að sextíu nýja dagforeldra.

Flest börn byrja svo á leikskóla um tveggja ára aldur. Árið 2023 þarf því að gera ráð fyrir fjölgun leikskólaplássa. Fyrir þrjú hundruð börn gæti þurft að reisa jafnvel þrjá nýja leikskóla.

Eftir sex ár byrjar svo þessi fjölmenni árgangur í skóla. Þetta getur þýtt fleiri eða stærri bekki en sex ára nemendur eru mest sextán í hverjum bekk. Miðað við það þyrfti allt að átján nýja bekki.

Sunna Kristín segir mikilvægt að kerfið verði undir þetta búið. „Þetta ætti ekki að koma okkur á óvart núna, þannig að ég held að það sé mikilvægt að vera bara tilbúin.“