Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rannsókn á vistheimilum fullorðinna undirbúin

21.11.2021 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þriggja manna nefnd forsætisráðherra safnar nú ítarlegum upplýsingum um starfsemi vistheimila ríkisins fyrir fullorðið fólk með fötlun eða geðrænan vanda. Nefndinni er ætlað að undirbúa rannsókn á málinu. Aðbúnaður vistmanna á stofnunum fyrir fullorðna hefur ekki áður verið rannsökuð.

Tilefni rannsóknarinnar eru uppljóstranir um illan aðbúnað fólks á vistheimilinu Arnarholti, sem Reykjavíkurborg rak fyrir fullorðið fólk, frá árinu 1945 til 1971.

Fimmtíu ár eru liðin síðan starfsmenn lýstu í vitnaleiðslum illri meðferð sem heimilismenn þar sættu. Það var ekki fyrr en í fyrra sem trúnaði var aflétt af gögnum málsins, í kjölfar umfjöllunar fréttastofu RÚV um málið.

Rúmur áratugur er síðan víðtæk rannsókn var gerð á opinberum stofnunum þar sem börn voru vistuð. Í kjölfarið voru lög sett um greiðslu sanngirnisbóta. Þær hafa verið greiddar til 1.100 einstaklinga, sem dvöldu á vistheimilum sem börn.

Engin rannsókn hefur þó verið gerð á stofnunum ríkisins fyrir fullorðna. Þar til nú.

Í undirbúningsnefndinni sitja Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og formaður, Una Björk Ómarsdóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, og Páll Biering, prófessor emeritus við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sem er tilnefndur af Geðhjálp og Þroskahjálp.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu mun nefndin afmarka þær rannsóknarspurningar, sem síðan verða lagðar til grundvallar við rannsókn málsins. En annarri nefnd verður falið að gera það.

Nefndin skilar forsætisráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. mars. Samkvæmt ályktun Alþingis átti nefndin að skila niðurstöðum sínum 1. desember 2021 en ákveðið var í samráði við Landssamtökin Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp  að framlengja skilafrestinn vegna umfangs verkefnisins, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.