Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kínastjórn breytir stjórnmálasamskiptum við Litháen

epa09589910 A plaque at the Taiwanese Representative Office on the 16th floor at the Jasinskio gatve 16B in Vilnius, Lithuania, 18 November 2021. Taipei announced on 18 November it has formally opened a de facto embassy in Lithuania using the name Taiwan.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínastjórn hefur ákveðið að í stað sendiherra verði sendifulltrúi eða „charge d'affaires“ í Litháen. Þetta kemur fram í yfirlýsingu kínverska utanríkisráðuneytisins í morgun sem viðbrögð við auknum tengslum Litháens við Taívan.

Taívan ákvað í júlí síðastliðnum að koma á fót nokkurs konar sendiráði eða umboðsskrifstofu í Vilnius höfuðborg Litháens, þeirri fyrstu í evrópsku ríki um 18 ára skeið. Eystrasaltsríkin og ríki í Mið-Evrópu hafa sýnt vilja til aukinna samskipta við Taívan. 

Ákvörðun Taívan vakti reiði Kínastjórnar sem kallaði sendiherra sinn heim frá Litháen og krafðist þess sama af Litháum.

Að lokum urðu þarlend stjórnvöld við þeirri kröfu. Sömuleiðis stöðvuðu Kínverjar ferðir flutningalesta til landsins og hættu að gefa út leyfi til útflutnings matvæla þangað.

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins segir að svo tryggja megi fullveldi Kína og eðlilegt milliríkjasamskipti neyðist Kínastjórn til að breyta stjórnmálasambandi sínu við Litháen.

Ákvörðun Litháa sýni slæmt fordæmi á alþjóðavísu og þeir bæru ábyrgð á afleiðingum ákvörðunar sinnar. Með því að leyfa opnun skrifstofu Taívan í landinu hefðu Litháar farið á svig við samþykktina um eitt Kína þar sem viðurkennt er að Taívan sé hluti landsins. 

Utanríkisráðuneyti Litháen kveðst harma viðbrögð Kínastjórnar og kveðst virða stefnuna um eitt Kína. Hins vegar áskilji það sér fullan rétt til að auka samskiptin við Taívan. 

Kínastjórn hefur ítrekað reynt að einangra Taívan á alþjóðavettvangi og mótmælt harðlega allri viðurkenningu, opinberri jafnt sem óopinberri á sjálfstæði landsins. Til að mynda með því að reyna að koma í veg fyrir alla notkun heitisins Taívan. 

Fréttin var uppfærð klukkan 06:14 með viðbrögðum utanríkisráðuneytis Litháens.