Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Á fimmta tug trans- og kynsegin myrt í Bandaríkjunum

epa09594911 Members and supporters of the LGBT community protest within the framework of the International Transgender Day of Remembrance, in Guadalajara, Jalisco state, Mexico, 20 November 2021. The Mexican trans community demonstrated this 20 November, International Transgender Day of Remembrance, amid a wave of transphobic violence in the country with the second most hate murders in Latin America.  EPA-EFE/Francisco Guasco
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Aldrei hefur jafnmargt transfólk og kynsegin fallið fyrir morðingja hendi í Bandaríkjunum en í ár. Minningardagur transfólks var í gær, laugardag. Bandaríkjaforseti lofaði hugrekki þess fólks í ávarpi í tilefni dagsins.

Það sem af er þessu ári hafa að minnsta kosti 47 trans- eða kynsegin manneskjur fallið fyrir morðingja hendi í Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á fréttavef CBS.

Samtökin Human Rights Campaign greindu frá þessu á fimmtudaginn en þann dag varð Angel Naira 47. fórnarlambið þegar hún var myrt á heimili sínu í Pennsylvaníuríki. Hvergi í Bandaríkjunum hafa fleiri trans- eða kynsegin verið myrt en þar, eða fimm það sem af er ári. 

Samtökin segja valdbeitingu gegn transfólki keyrða áfram af fordómum og fælni sem kynt sé undir með orðræðu þeirra sem líkar ekki hve langt réttindabaráttan hefur náð.

Talsfólk samtakanna telur að fjöldi hinna myrtu kunni að vera meiri þar sem iðulega er ekki tilkynnt um morðin eða þau ranglega skráð til bókar. Samtökin hafa fylgst með og rannsakað ofbeldi gegn trans- eða kynsegin fólki síðan 2013 en met var slegið í fyrra þegar 44 voru myrt. 

Flest hinna myrtu eru konur, dökkar á hörund. Joe Biden Bandaríkjaforseti hrósaði einurð transfólks í ávarpi í tilefni minningardagsins en sagði jafnframt að engin manneskja ætti að þurfa á hugrekki að halda til þess eins að lifa með reisn og í öryggi.

Hann gagnrýndi sömuleiðis harðlega alla þá löggjöf sem komið hefur verið á víða um landið til að draga úr réttindum ungs transfólks. Að minnsta kosti 75 slík hafa lög verið innleidd frá því í mars 2020 og fleiri í smíðum.